Fjarskiptafyrirtækið Nova mun ekki rukka fyrir notkun á rafrænum skilríkjum frá og með deginum í dag, 1. desember, í þeirri von að ná samkomulagi við Auðkenni, sem á og rekur rafræn skilríki.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nova, sem segir viðræður hafa staðið yfir milli fyrirtækjanna um „að Auðkenni beri kostnaðinn sem hlýst af rekstri og notkun rafrænna skilríkja á kerfi Nova“. Vegna aðkomu fleiri aðila að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála, m.a. opinberra aðila, sé hins vegar ljóst að töf verði á að skýr niðurstaða fáist.
„Nova hefur haldið þeim sjónarmiðum á lofti að óeðlilegt sé að Nova og viðskiptavinir Nova niðurgreiði þjónustu Auðkennis. Rafræn skilríki eru þjónusta Auðkennis en ekki símafyrirtækjanna og því ætti Auðkenni að bera kostnað, rétt eins og það fær til sín tekjur vegna hennar,“ segir í tilkynningu Nova.
Þá er haft eftir Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, að sér þyki leitt að viðskiptavinir Nova hafi flækst inn í deilur fyrirtækisins við Auðkenni, bankana og Símann. „Við munum láta af verðlagningu frá og með deginum í dag í þeirri von að samningar við Auðkenni fái farsælan endi,“ sagði Liv.
Í tilkynningu sem Síminn sendi frá sér vegna málsins segir að fyrirtækið deili þeirri skoðun með Nova að fjarskiptafélög eigi ekki að greiða sérstaklega gjöld til Auðkennis vegna rafrænna skilríkja.
„Síminn á ekki í deilum við Nova vegna þeirra. Síminn á um 16% hlut í félaginu Auðkenni og steig inn í það árið 2009 til að tryggja að þessi örugga auðkenning yrði tengd farsímum sem einfaldar mjög lífið. Síminn telur kostnað af notkun rafrænna skilríkja óverulegan miðað við ávinninginn, og því hafa þau alltaf verið innifalin í þjónustu Símans,“ segir í tilkynningunni.