Sextán framhaldsskólanemar hringdu í dag Íslandsklukkunni við Háskólann á Akureyri, einu sinni hver. Íslandsklukkunni, listaverki Kristins Hrafnssonar myndlistarmanns, er jafnan hringt 1. desember og síðan um aldamót einu sinni fyrir hvert ár frá þeim tímamótum.
Í tilefni Fullveldisdagsins fór í dag fram, í háskólanum, þjóðfundur framhaldsskólanema af Norðurlandi, undir leiðsögn nemenda og kennara við HA. Þar tókust nemendur á við ýmsar spurningar varðandi stjórnmál, nokkrir hópar stofnuðu stjórnmálaflokk þar sem mál voru krufin til mergjar og niðurstaðan kynnt í stuttum fyrirlestrum.
Að þjóðfundinum loknum var Íslandsklukkunni hringt og síðan var, venju samkvæmt, boðið upp á kakó og smákökur í anddyri skólans.