Ákærði verjandi í hliðarmáli

Pétur Gunnlaugsson mætir í dómsal ásamt verjanda sínum, Jóni Steinari …
Pétur Gunnlaugsson mætir í dómsal ásamt verjanda sínum, Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

Allir ákærðu neituðu sök í fjórum hatursorðræðumálum sem þingfest voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Pétur Gunnlaugsson, lögmaður og útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, mun verja guðfræðinginn Jón Val Jensson, í máli Jóns, en Pétur er sjálfur ákærður í hliðstæðu máli fyrir ummæli sín í útvarpsþætti sínum á stöðinni.

Pétur sagði ákæruna gegn sér vera tilhæfulausa með öllu og neitaði sakargiftum. Jón Valur tók í sama streng í sínu máli og sagðist andmæla og hafna ákærunni gjörsamlega. Sagðist hann líta á ákæruna sem mannlega móðgun við sig. Þá sagði hann að saksóknari hefði komið orðinu hatursorðræðu inn í ákæruna, en að það orð komi ekki fyrir í íslensku lagasafni. „Mjög ósæmilegt,“ sagði Jón Valur um þá framsetningu.

Tveir aðrir menn eru ákærðir í sambærilegum málum og neituðu þeir báðir sök.

Verjandi Péturs fór við þingfestinguna fram á að fá upptökuna, þar sem heyra má ummælin sem ákært er fyrir, afhenda á geisladisk og nánari lýsingu á hvar mætti finna ummælin, en útvarpsþátturinn var í heild þrír tímar að lengd.

Sagði dómari málsins það vera erfitt í ljósi þess að Hæstiréttur hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að geisladiskar væru ekki skjöl og því mætti ekki afhenda verjendum þá við þinghaldið heldur hefði það verið venjan að verjendur færu í húsnæði saksóknara til að hlusta á samtöl sem tekin hefðu verið upp. Verjandi Péturs er Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari og spurði hann í gríni: „hvað er með þennan Hæstarétt, er hann að segja einhverja vitleysu,“ og uppskar þar með smá hlátur í dómsalnum.

Fyrirtökur í málinu verða næst í janúar og febrúar og aðalmeðferð á sama tíma í einhverjum af málunum.

Jón Valur Jensson er meðal þeirra sem ákærður er í …
Jón Valur Jensson er meðal þeirra sem ákærður er í málunum. Hann neitaði sök eins og aðrir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka