Flugmaður neyddist til að nauðlenda lítilli flugvél í Heiðmörk nú rétt eftir hádegi. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er um að ræða litla vél sem náð hafi lendingu heilu og höldnu. Í samtali við mbl.is segir hann að lendingin hafi verið auðveld.
Lögreglan er nú mætt á lendingarstað vélarinnar. Flugmaðurinn var aðeins einn um borð, og náði að lenda vélinni á vegi.
Emil Ágústsson, flugmaður og eigandi vélarinnar, segir í samtali við mbl.is að gangtruflanir hafi neytt hann til að lenda henni.
Hvernig gekk þér að lenda?
„Það var fínt sko, ekkert mál,“ segir Emil. „Ég lenti bara á veginum, sem sést vel úr lofti.“
Hvað þarftu langa vegalengd til að lenda?
„Ég þarf ekki nema svona tuttugu til fimmtíu metra. Þetta er þannig vél.“
Þú hefur varla lent í þessu áður, að þurfa að nauðlenda?
„Nei, þetta er fyrsta skiptið. En þetta er eitthvað sem maður er búinn að æfa í gegnum tíðina.“
Áður en Emil lenti vélinni náði hann að senda neyðarkall í flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.
„Um leið og neyðarkall berst þá fer í gang ákveðin viðbragðsáætlun, þar sem allir viðbragðsaðilar hafa aðkomu,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.