Leita að pari vegna frelsissviptingar

Frá aðgerðum lögreglu í Fellsmúla 9 og 11.
Frá aðgerðum lögreglu í Fellsmúla 9 og 11. mbl.is

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að pari, karli og konu, sem talin eru tengjast meintri frelsissviptingu manns í Fellsmúla. Sagðist maðurinn í gær hafa verið í haldi í tvo sólarhringa og honum misþyrmt í íbúð þeirra, en hann klifraði frá svölum íbúðarinnar og yfir á aðrar svalir, þar sem íbúar létu lögreglu vita af honum.

Var hann þá í nærfötunum einum fata, nokkuð lemstraður en ekki beinbrotinn.

Frétt mbl.is: Fór á milli hæða

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknardeild lögreglunnar, segir í samtali við mbl.is að þeir tveir, sem handteknir voru í gær vegna málsins, séu enn í haldi og með réttarstöðu grunaðra.

„Við erum að finna út hvort að þeir tengist málinu með þeim hætti eða ekki, það er verið að reyna að upplýsa það,“ segir Grímur. Engin ákvörðun hafi þá verið tekin um að óska eftir gæsluvarðhaldi, en það verði að liggja fyrir síðdegis í dag.

Íbúðin, þar sem maðurinn segir að sér hafi verið haldið, var mannlaus þegar lögreglan gekk þar inn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert