Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, felldi í morgun jólatré í Jólaskógi Skógræktarfélags Reykjavíkur, en það er hefð hjá mörgum fjölskyldum að heimsækja skóginn til að höggva eigið tré fyrir jólin.
Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is, að þegar borgarstjórinn hefur fellt fyrsta tréð sé skógurinn formlega opnaður fyrir fjölskyldur til að sækja sér tré.
„Þetta er í fallegum furuskógi, en þetta er fyrst og fremst stafafura og allar stærðir af trjám,“ segir Helgi og bætir við að trén séu afar frísk og heilbrigð enda sumarið afar gott.
Aðspurður segir hann að á bilinu 1.500 til 2.000 tré séu felld í skóginum árlega. „Þetta eru gjarnan fjölskylduferðir. Það er ekki óalgengt að menn sjái þrjá ættliði koma saman að njóta sín. Stoppa kannski í nokkra tíma, eru á skógarrölti, setjast við varðeldinn og fá sér kakó. Þetta verður notaleg fjölskylduferð,“ segir Helgi.
Jólaskógurinn, sem í ár er á Hólmsheiði, verður opinn allar helgar fram að jólum kl. 11 – 16 og þar munu jólasveinar láta sjá sig.
Gróðursetning á Hólmsheiði er samvinnuverkefni Reykvíkinga og Skógræktafélags Reykjavíkur. Ungmenni hafa tekið þátt í gróðursetningu í tugi ára á Hólmsheiði og í Heiðmörk og sem fullorðin mæta þau aftur og höggva sér jólatré. Fyrir hvert fellt tré eru 50 ný gróðursett.