Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur krafið verslunarkeðjuna Krónuna um úrbætur á því hvernig staðið er að sölu á fersku brauðmeti í fjórum verslunum Krónunnar í Kópavogi og Hafnarfirði.
Krónan og heilbrigðiseftirlitið hafa deilt um fyrirkomulagið mánuðum saman. Jón Björnsson, forstjóri Kaupáss, móðurfélags Krónunnar, segir í Morgunblaðinu í dag, að þessi deila um brauðin í verslunum Krónunnar hafi staðið í nokkra mánuði.
„Við hófum málið og erum að reyna að knýja fram ákvörðun þess efnis hvort reglur um brauðbari séu öðruvísi en í öllum nágrannalöndum okkar – löndum sem við berum okkur saman við,“ sagði Jón. Hann segir að heilbrigðiseftirlit á Íslandi séu sett upp eftir svæðum og misjafnar reglur gildi hjá mismunandi svæðum, eða reglurnar túlkaðar á mismunandi hátt. Eins hafi heilbrigðiseftirlit hér á landi túlkað reglur öðruvísi en Evrópulönd hafi gert.