Fundu upphafsmann „dabbsins“

Sigmar Þór Baldvinsson, Einar Örn Valsson, Marel Baldvinsson og Arnór …
Sigmar Þór Baldvinsson, Einar Örn Valsson, Marel Baldvinsson og Arnór Baldvinsson eru vissir um að upphafsmaður dabbsins sé Einar Jónsson myndhöggvari.

Án efa hefur sá sem þetta les séð einhvern gera hið svokallaða „dabb“ á götum úti. Erlendis heitir þetta að gera „the dab“ – beygja handlegginn um olnbogann, halla undir flatt og grúfa andlitið ofan í hann hálfpartinn eins og maður sé að reyna að verjast því að hnerra um leið og hinni hendinni er skotið til hliðar og ögn upp á við.


En af hverju eru allir að þessu? Hvaðan kemur þetta? Man einhver eftir plankanum? Þetta er æði af svipuðu tagi og er að ná hápunkti hjá yngstu kynslóðunum um þessar mundir.
Nokkuð hefur verið deilt um uppruna dabbsins. Vissulega er endalaust hægt að finna fólk að gera sams konar hreyfingu í gegnum tíðina án þess að úr hafi orðið æði. En deilan snýst sem sagt fyrst og fremst um það hver hafi gert þessa hreyfingu að æði þar sem háir og lágir dabba út um allar trissur; Harry Bretaprins bregður á leik og dabbar í opinberum heimsóknum, þekktustu íþróttamenn heims dabba til að fagna sigri, leikskólabörn dabba og fréttastjóri RÚV stelst til að gera dabbið þegar fréttatíma lýkur og nafnalisti útsendingar rennur yfir skjáinn.

Ræturnar eru taldar liggja í Atlanta hipp hopp-senunni vestanhafs og listamenn, svo sem Migos, Skippa Da Flippa, Peewee Longway, Jose Guapo og Rich The Kid hafa rifist um hver „eigi“ það upphaflega og virðast flestir á því að Skippa Da Flippa sé sá fyrsti úr þeirri senu til að dabba í tónlistarmyndböndum sínum og rúllaði sá bolti af stað á síðasta ári.

Dabb er vinsælt í íþróttunum.
Dabb er vinsælt í íþróttunum.


Þaðan rúllaði hann yfir í íþróttirnar og bandarískur ruðningskappi NFL-deildarinnar dúndraði dabbinu upp í himinhvolfið með því að fagna með átta sekúndna dabbi. Og dabbið lagði íþróttaheiminn þar með að velli og afgangurinn er segin saga; heimsbyggðin fylgist með hverju skrefi helstu íþróttahetja heims, fær sér eins hárgreiðslu og vill að sjálfsögðu líka dabba.


Hérlendis er dabbið einkar vinsælt meðal grunnskólanema en einnig þeirra sem í efri bekkjum eru og krakkar dabba í hópum eða bara ein á gangi á leið í skólann.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina er farið yfir dabb-æðið svokallaða og upphaf þess en einn viðmælandi blaðsins var á ferð með sonum sínum þremur og vini þeirra í Listasafni Einars Jónssonar og þar töldu þeir félagar sig hafa fundið upphafsmann dabbsins, sjálfan Einar Jónsson, og fannst strákunum viðeigandi að dabba við verk hans sem sýndi það ótvírætt. 

Einn vinsælasti knattspyrnumaður Frakka, Paul Pogba, leikmaður Manchester United, hefur verið ötull við að gera dabbið og hafa stærðfræðikennarar þar í landi nýtt sér vinsældir hans og dabbsins hans til kennslu þar sem börnin eru látin nýta sér þríhyrninga sem handleggirnir mynda til að læra rúmfræði.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert