Á fimmta tug mótmælenda söfnuðust saman á Hlemmi í Reykjavík um klukkan tvö í kröfugöngu til stuðnings réttindum hælisleitenda og flóttamanna. Krafa þeirra er að Útlendingastofnun verði lögð niður, fólk fái að vinna á meðan mál þess er í vinnslu og að mál þeirra verði rannsökuð af alvöru.
Hópur fólks var með fána og trommur og gekk niður Laugaveginn. Á borða sem mótmælendur héldu á mátti lesa skilaboðin: Ekki fleiri brottvísanir.
Í tilkynningu frá samtökunum No Borders Iceland um kröfugöngu hælisleitenda og flóttamanna eru íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir þær reglur sem gilda um hælisleitendur og flóttamenn. Einnig er framkvæmd þessara laga og reglna fordæmd.