„Ég er svo ánægð að vera á lífi. Ég er svo þakklát. Ég dó næstum því þegar ég var 21 árs,“ segir Helga Ingibjörg Þorvaldsdóttir sem fyrir tæpu ári var vart hugað líf eftir alvarlegt bílslys á Hrútafjarðarhálsi. Með keppnisskapið sitt og einstaka jákvæðni að vopni hefur hún nú náð ótrúlegum bata sem líkja má við kraftaverk.
„Ég skal standa fyrir utan og taka á móti þér,“ segir Helga bjartri röddu í símann við blaðamann sem villtist á leið til fundar við hana og móður hennar. Þessi orð Helgu eru í raun mjög merkileg því fyrir nokkrum mánuðum var ekkert sjálfsagt að hún myndi standa aftur í fæturna. Hvað þá að hún myndi ganga. En hér stendur hún, falleg, frískleg og brosandi í lítilli íbúð sem hún leigir í Seljahverfinu ásamt kærastanum, Sigurði Lofti Jóhannssyni.
Kraftaverkakonan eins og læknarnir kalla hana. Skíðakonan efnilega sem brotnaði svo illa í slysinu að annað eins hafði varla sést. Nú dreymir hana um að læra hjúkrunarfræði. Og að komast aftur á skíði innan tveggja ára.
Helga Ingibjörg er 22 ára, dóttir Elínar Bjarkar Gísladóttur og Þorvalds Þorsteinssonar. Hún á þrjá bræður. Hún bjó í Hafnarfirði til fjögurra ára aldurs en þaðan flutti hún í Mývatnssveit þar sem hún bjó í tólf ár. Svo lá leiðin til Akureyrar í eitt ár og loks til Ólafsfjarðar þar sem hún bjó er slysið varð.
Helga Ingibjörg og Sigurður Loftur voru á leiðinni suður hvort á sínum bílnum að kvöldi 3. janúar. Þau höfðu eytt jólum og áramótum með vinum og ættingjum á Ólafsfirði. Helga var á leið í vinnuna í Staðarskála og hann á leiðinni til Reykjavíkur. Hann ók á undan og leit annað slagið í baksýnisspegilinn og sá að hún fylgdi rétt á eftir. En allt í einu hurfu ljósin á bílnum hennar. Hann sneri strax við og kom þá að bílnum hennar utan vegar. Hún var slösuð, það vissi hann strax, en gat engan veginn áttað sig á hversu alvarlega. Hún var með meðvitund og talaði við hann. Sagði að sér væri illt í bakinu og að hún næði ekki andanum.
Sigurður var sá fyrsti sem kom að slysinu. Það sem hann sá ekki var stór blóðpollur sem hafði myndast hinum megin við bílinn, slíkar voru blæðingar Helgu. Hann brást hárrétt við og hringdi strax í Neyðarlínuna.
„Við vorum á Ólafsfirði um morguninn en kíktum til Akureyrar þar sem við fengum okkur að borða og ég verslaði smá,“ segir Helga um þennan dag. „Við stoppuðum svo í Varmahlíð og fengum okkur að drekka. Það er það síðasta sem ég man. Þannig að ég man ekkert eftir slysinu eða aðdraganda þess.“
Á Hrútafjarðarhálsi hafði Helga lent í árekstri við annan bíl sem fór inn í hlið bílsins hennar. Bílstjóri þess bíls, sem var einn á ferð, slapp ómeiddur.
Bíll Helgu var mjög mikið skemmdur og þegar sjúkra- og lögreglulið kom á vettvang þurfti að klippa hana út úr honum. Þegar Helgu var svo lyft úr flaki bílsins öskraði hún af sársauka. Þá fór Sigurður að átta sig á meiðslum hennar. Við blasti opið lærleggsbrot á vinstri fæti. „Lærleggurinn hékk bara út úr fætinum á vöðvunum,“ segir Helga Ingibjörg.
Helgu var komið fyrir í sjúkrabíl sem átti að flytja hana til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Sigurður lét móður hennar vita af slysinu og því að hún hefði verið með meðvitund. En í sjúkrabílnum hætti hún að anda og hefja þurfti endurlífgun. „Þeir misstu mig næstum því, ég var við það að deyja,“ segir Helga. Við Staðarskála beið svo þyrlan sem flutti hana á Landspítalann.
Heima í Ólafsfirði var Elín móðir hennar búin að panta sér flugferð til Reykjavíkur morguninn eftir. Hún hafði aðeins fengið upplýsingar hjá Sigurði af slysstað og vissi því ekki hvað gekk á í sjúkrabílnum. „Við sáum það svo í fréttunum að hún væri í lífshættu,“ rifjar Elín upp.
Elín fékk þetta staðfest hjá Landspítalanum. Hún og sonur hennar ákváðu þá að keyra strax til Reykjavíkur. Á meðan barðist Helga Ingibjörg fyrir lífi sínu og gekkst undir aðgerð þar sem reynt var að stöðva hinar miklu blæðingar. „Þetta er tvísýnt,“ segir Elín að læknirinn hafi sagt við hana. Hann vildi að hún kæmi sem fyrst í bæinn. Á þessum tímapunkti var útlitið mjög svart. „Þeir héldu að þeir myndu missa mig,“ hefur Helga eftir læknunum. „Þeir voru næstum því farnir að skrifa niður dánarstund.“
Blæðingarnar voru bæði vegna lærleggsbrotsins sem og mjaðmagrindarinnar sem var mölbrotin á þremur stöðum. Í botni hennar safnaðist blóð hratt upp. „En svo allt í einu stoppaði blæðingin,“ segir Helga. „Þess vegna segja þeir að þetta sé bara kraftaverk, alveg ótrúlegt.“ Læknarnir hófust þá þegar í stað handa við að loka skurðunum.
Elín var skammt frá Reykjavík er hún fékk upplýsingar um að tekist hefði að stöðva blæðinguna. Dóttir hennar var þó enn í lífshættu. „Ég var einhvern veginn hálfdofin,“ segir Elín um þetta kvöld, áfallið var það mikið. „Ég átti von á því að þetta gæti farið á báða vegu, að ég myndi jafnvel missa dóttur mína.“
Frekari meiðsli áttu eftir að koma í ljós. Helga var brotin á átta stöðum, m.a. á lærlegg, mjaðmagrind og brjóstkassa. Þá var rassvöðvi slitinn, nýra skemmt og einnig blæddi inn á lunga hennar.
Næstu sólarhringa var Helgu Ingibjörgu haldið sofandi í öndunarvél. Tvisvar sinnum var reynt að vekja hana en í bæði skiptin var hætt við það því líkami hennar var einfaldlega ekki tilbúinn.
„Ég sat hjá henni, hélt í höndina á henni og talaði við hana því mér var sagt að hún gæti heyrt í mér,“ segir Elín um þessa erfiðu daga. „Það var það eina sem maður gat gert.“
Frá upphafi var rætt um að óvíst væri hvort Helga myndi ganga að nýju. Mjaðmagrindarbrotið var það alvarlegt, eitt það svæsnasta sem læknarnir höfðu séð. En skömmu eftir að Helga hafði verið tekin úr öndunarvélinni sá Elín allt í einu hreyfingu í fæti dóttur sinnar. „Ég hoppaði upp og hljóp hrópandi út á gang,“ rifjar hún upp. „Hún hreyfði fæturna, hún hreyfði fæturna!“ segist Elín hafa hrópað hástöfum. Læknar og hjúkrunarfólk komu hlaupandi að og gerð voru próf til að sannreyna hreyfingarnar. „Og svo brosti læknirinn og staðfesti þetta,“ segir Elín og ljómar við minninguna. „Það var rosaleg stund, þarna vissum við loks að hún væri ekki lömuð.“
Áður en tókst að vekja Helgu voru aðstandendur hennar búnir undir það versta og var þessi tími skelfilegur að sögn móður hennar. Sjálf man Helga ekkert eftir því þegar hún vaknaði eða fyrstu dagana á eftir. Vegna gríðarlegra verkja og meðferðar sem hún þurfti við þeim dvaldi hún á gjörgæslu í á þriðju viku.
Elín segir að strax hafi verið sagt við Helgu, þó að hún muni ekki eftir því, að hún hefði lent í bílslysi. „Það fyrsta sem hún spurði var hvort ekki væri allt í lagi með bílstjórann í hinum bílnum. Hún var ekkert að hugsa um sjálfa sig,“ segir Elín.
Helga man fyrst eftir sér nokkrum dögum eftir að hún var vakin. Það fyrsta sem hún sá var grindin sem hélt brotnum líkama hennar saman. „Ég vissi ekkert hvar ég var eða hvað þetta væri sem var ofan á mér,“ segir Helga.
Ljóst var frá upphafi að Helga þyrfti að gangast undir stóra aðgerð til að púsla mjaðmagrindinni saman aftur. Læknarnir á Landspítalanum ákváðu að leita sérfræðiaðstoðar í Noregi. Nokkrum dögum eftir slysið var því haft samband við Ómar Þorstein Árnason, bæklunarskurðlækni og yfirlækni á Haukeland-sjúkrahúsinu í Bergen. Hann kom svo hingað til lands ásamt Benedikt Árna Jónssyni, sem einnig starfar í Noregi, til að gera aðgerðina í félagi við lækna- og hjúkrunarteymi á Landspítalanum. Hún var bæði flókin og áhættusöm.
„Í fyrsta lagi er hægt að segja að hún sé heppin að vera á lífi. Og þetta hefði getað farið verr. Miklu verr,“ segir Ómar um meiðsl Helgu. „Það eru svo miklir kraftar að verki í svona bílslysi þannig að áverkarnir voru mjög alvarlegir.“
Ómar hefur gert margar aðgerðir á sjúklingum með mjaðmagrindarbrot þau ellefu ár sem hann hefur starfað í Noregi en aðgerðin á Helgu var þó flóknust þeirra allra. Þar sem sautján dagar liðu frá slysinu og þar til hægt var að framkvæma aðgerðina voru brotin farin að gróa og þvagblaðran var til dæmis gróin föst við mjaðmagrindina að innanverðu. „Þetta var því ein erfiðasta aðgerð sem ég hef gert, því það var allt orðið fast,“ segir Ómar. Markmið aðgerðarinnar var m.a. að púsla brotnu beinunum rétt og vel saman og laga mikla skekkju sem var í mjaðmagrindarhringnum og hefði getað valdið Helgu miklum verkjum alla tíð.
Aðgerðin tók margar klukkustundir. Þar sem mjaðmagrindin var brotin bæði að framan og aftan þurftu læknarnir að skera Helgu fyrst upp á grúfu til að komast að spjaldbeininu og meitla það upp, snúa henni svo við og skera að framanverðu.
„Það sem er hættulegt við aðgerð á þessu svæði eru allar taugarnar sem fara niður í fótinn í gegnum spjaldbeinið,“ segir Ómar. Hann segist hafa óttast að ef hreyft yrði of mikið við beininu, til að rétta skekkjuna á grindinni, hefðu taugar getað eyðilagst. Síðan voru settar tvær langar skrúfur í spjaldbeinið.
Að framanverðu þurfti að koma fyrir plötu í grindinni sem fest var með níu skrúfum og voru sumar allt að 12 sentímetra langar. „Um þetta svæði liggja stóra æðar og taugar niður í fæturna. Að auki er maður að vinna í nánd við stór og mikilvæg líffæri sem geta auðveldlega orðið fyrir áverka í aðgerðinni ef maður heldur ekki fullri einbeitingu. Það er því ekki mikið sem má fara úrskeiðis í svona aðgerð,“ segir Ómar. „En það kom ekkert annað til greina hjá mér en að gera þetta það vel að hún gæti lifað eðlilegu lífi, þó að hún færi kannski ekki að hlaupa maraþon.“
Mjaðmagrindarbrot eru alvarlegustu áverkar sem bæklunarskurðlæknar fást við. „Þetta eru í raun einu bæklunaráverkarnir sem fólk getur dáið af,“ segir Ómar. Skýringin er sú að slíkir áverkar koma yfirleitt aðeins eftir hátt fall eða mjög þungt högg, s.s. við harðan árekstur. Allar stóru æðar líkamans liggja utan í mjaðmagrindarveggnum. Þegar brot verður rifna þessar æðar gjarnan eða þá að beinendarnir stingast inn í æðarnar og gera gat á þær. „Þá fyllist allt mjaðmagrindarholið af blóði,“ útskýrir Ómar. „Það rúmar alveg fjóra lítra. Blæðingin stoppar oft ekki fyrr en holið er orðið fullt. Þá hefur sjúklingnum hugsanlega blætt út.“
Á meðan Ómar og aðrir í teyminu framkvæmdu aðgerðina á Helgu biðu Elín og Sigurður á spítalanum milli vonar og ótta. Myndi aðgerðin takast? Myndi hún lifa þetta af?
Og aðgerðin á Helgu tókst. Betur en nokkur þorði að vona. „Þeir segja að ég sé algjört kraftaverk,“ segir Helga og brosir. „Það er víst ótrúlegt að ég lifði þetta slys af, ég átti greinilega ekki að fara á þessari stundu.“
Allt frá því að Helga rankaði við sér á gjörgæslu var hún með mikla og stöðuga verki. Aðgerðin stóra breytti engu þar um. Hún engdist um af sársauka. Og þannig var það næstu vikur og mánuði. Engin stelling var þægileg og engin lyf linuðu almennilega kvalirnar. „Ég viðurkenni alveg að þetta var stundum þannig að mig langaði ekki að vera til lengur,“ segir Helga. „Þetta var martröð. Ég grét úr verkjum.“
Elín var áfram við hlið hennar á spítalanum, hélt í hönd hennar og reyndi að hugga hana. „Og þú söngst fyrir mig, þú söngst Sofðu unga ástin mín,“ segir Helga og lítur blíðlega á móður sína.
Í einn og hálfan mánuð var Helga algjörlega rúmföst. Það eina sem hún gat gert var að horfa á sjónvarpið. Það kom svo loks að því, þegar meiðslin voru nægilega gróin, að henni var leyft að sitja í hjólastól. „Það var hrikalega vont, ég var mjög kvalin, en ég vildi þetta auðvitað samt, fá smá frelsi.“
Helga hóf svo endurhæfingu á Grensásdeild og í fyrstu var hjólastóllinn hennar helsta hjálpartæki. Hún þurfti á þessum tíma aðstoð við ýmsar hversdagslegar athafnir, svo sem að klæða sig og fara á klósettið.
Á Grensási var hún í mikilli sjúkraþjálfun og í apríl fékk hún að prófa að stíga í annan fótinn. „Ég þurfti einfaldlega að læra að ganga upp á nýtt,“ segir Helga. Þó að meðferðin hafi verið sársaukafull, sérstaklega í fyrstu, gekk hún vel. Um vorið var Helga farin að notast við hækjur.
Smáu sigrunum, sem voru samt svo stórir, var fagnað ákaft. Helga þráði til dæmis að byrja á blæðingum aftur eftir slysið, enda vill hún eiga möguleikann á því að ganga með barn í framtíðinni. Þegar það svo loks gerðist segist hún hafa hrópað af gleði og að starfsfólkið á Grensási hafi samglaðst henni.
Keppnisskapið, sem hafði nýst henni svo vel í skíðaíþróttinni, fleytti henni líka langt í bataferlinu. Hún setti sér markmið og náði þeim. „Ég var allt frá upphafi mjög þakklát fyrir að höfuðið og mænan sködduðust ekki, að ég væri enn ég sjálf og gæti gengið,“ segir Helga. Annað, þótt alvarlegt væri, skipti að hennar mati minna máli.
„Hún einblíndi alltaf á það sem var í lagi, ekki það sem var brotið,“ segir Elín og horfir ástúðlega á dóttur sína.
Enda var það jákvæðnin og þakklætið sem kom Helgu í gegnum þessa erfiðleika að sögn mæðgnanna. „Jákvæðnin bætir allt og breytir öllu,“ segir Helga og brosir.
Þann 16. júní var hún svo útskrifuð af Grensásdeildinni. Þá notaði hún enn hjólastól annað slagið sem og hækjur. Í dag fer hún flestra sinna ferða gangandi en grípur enn til hækju, þurfi hún þess með.
Helga á enn erfitt með að ganga langar vegalengdir og eins getur hún ekki setið lengi í einu. Hún er enn með verki og stundum mjög mikla. Verkjalyfin fylgja henni því enn. Síðustu vikur hafa skammtarnir verið minnkaðir smám saman. Það hefur valdið henni miklum óþægindum. „Ég hef upplifað mikil fráhvarfseinkenni, það var algjör martröð,“ segir Helga sem var meðal annars á þrenns konar morfínlyfjum um tíma. Að minnka lyfjaskammtana er ein mesta áskorunin í lífi Helgu í dag, tæpu ári eftir slysið.
Meðferð Helgu Ingibjargar er hvergi nærri lokið. Hún er enn í sjúkraþjálfun, er í stoðkerfisskólanum, fer svo líka sjálf í ræktina og í sund annað slagið. Þá gengur hún reglulega til sálfræðings. Því eftir lífshættulegt slys, og miklar kvalir í kjölfarið, getur reynst erfitt að fóta sig í lífinu að nýju. „Þetta var auðvitað mikið áfall,“ segir Helga. Hún á til dæmis enn erfitt með að keyra bíl og treystir sér enn sem komið er ekki til að aka út á land. „Þegar bíll kemur á móti mér þá hægi ég ósjálfrátt á mér. Ég er svo hrædd um að fá hann á mig.“
Helga viðurkennir fúslega að það hafi komið augnablik síðustu mánuði þar sem hún hafi verið hrædd um að deyja. „Ég man oft eftir að hafa fengið þá tilfinningu,“ segir hún.
Helga á enn erfitt með svefn og glímir við mikinn kvíða í kjölfar slyssins. „Sumir dagar eru betri en aðrir,“ segir hún full æðruleysis. „En mér finnst þetta samt ganga vel, sérstaklega þegar ég hugsa til baka til þess tíma sem ég þurfti aðstoð við allt og var að farast úr verkjum.“
Elín minnir á að Helga er kornung, konur á þessum aldri séu flestar í skóla, að skemmta sér og ferðast. „Henni var auðvitað kippt út úr hringiðu lífsins um tíma. Það er ekki auðvelt fyrir unga konu.“
Síðustu mánuðir hafa einnig verið erfiðir fyrir aðstandendur Helgu. Það á ekki síst við um kærastann, Sigurð Loft. Þau Helga höfðu aðeins verið saman í sjö mánuði er slysið varð. Hann stóð að sögn mæðgnanna við hlið hennar eins og klettur allan tímann og gerir enn. „Hann kom að slysinu og var svo nokkrum sinnum í þeirri stöðu að vita ekki hvort ég myndi lifa þetta af,“ segir Helga.
Móðir hennar segir einkennilegt að hugsa til þess hvernig hún hafi komist í gegnum fyrstu vikurnar. „Ég fór þetta á hnefunum. Leyfði mér ekki að gráta. Ég var bara þarna fyrir hana. Það var það eina sem skipti máli.“
Elín og Helga eiga varla orð til að lýsa því góða starfsfólki sem þær segja að starfi á Landspítalanum og á endurhæfingunni á Grensási. „Læknarnir allir, þeir sem björguðu lífi hennar og þeir sem gerðu þessa stóru aðgerð. Og allt hjúkrunarfólkið. Þetta er allt ótrúlegt fólk,“ segir Elín. „Það var sagt við okkur alveg frá byrjun að allt yrði gert fyrir hana.“ Og við það var staðið. „Ég er svo þakklát. Svo þakklát að hún er á lífi í dag.“
Þá var mikið beðið fyrir Helgu og bárust mæðgunum ógrynni af hlýjum og kærleiksríkum kveðjum og bataóskum úr öllum áttum og fyrir það eru þær mjög þakklátar. „Við viljum trúa því að það hafi hjálpað henni líka,“ segir Elín. Ólafsfirðingar stóðu sérstaklega þétt við bakið á þeim. Sá stuðningur var að þeirra sögn ómetanlegur.
Í janúar mun Helga fara í myndatöku þar sem verður skoðað hvernig líkami hennar hefur gróið. Í apríl sást á slíkri mynd að enn var stórt gat í lærleggnum. Eftir þá rannsókn mun Helga geta horft fram á veginn með niðurstöðu hennar í farteskinu, hver svo sem hún verður.
Helga segir að síðustu mánuðir hafi vissulega breytt sýn hennar á lífið. Hún átti sig nú á hversu stutt það getur verið. Fæst fólk á hennar aldri hefur fengið jafnharkalega áminningu um það. „Ég gef meira af mér, ég reyni að vera umhyggjusamari og kærleiksríkari. Og maður á að njóta lífsins, elta draumana sína,“ segir Helga.
Jákvæðnin hennar Helgu er enn eitt hennar beittasta vopn. Áður en hún fór í stóru aðgerðina sagði hún við kærastann sinn: „Ég ætla að kenna þér á skíði.“ Nú hefur hún sett sér það markmið að fara aftur á skíði eftir tvö ár. „Þá ætla ég að standa við það að kenna Sigga á skíði,“ bætir hún hlæjandi við.
Eftir áramót ætlar hún í förðunarnám. Hana dreymir svo um nám í hjúkrunarfræði. Það verður þó að bíða um hríð því eins og staðan er getur Helga ekki setið lengi yfir námsbókum vegna verkja. „Ég fer bara í það seinna, ég á allt lífið fram undan,“ segir hún og lítið bros færist fram á varirnar.