Kólnar en áfram milt

Spákort fyrir þriðjudaginn 6. desember.
Spákort fyrir þriðjudaginn 6. desember. Skjáskot/veðurvefur mbl.is

„Það má segja að það sé líklega að sjá fyrir endann á hlýindunum,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um veðurhorfur næstu daga. „Þetta fer að síga nær meðallaginu.“

Mjög hlýtt hefur verið á landinu undanfarna daga og mánuði. „Október og nóvember hafa verið afbrigðilega hlýir, má segja,“ segir Haraldur. Á vef Veðurstofu Íslands segir að mesti hiti á landinu í dag sé á Dalatanga en þar er 16,2 stiga hiti. Þá eru 14,9 stig á Eskifirði og 12,3 stig í Neskaupstað.

Veðurvefur mbl.is

Haraldur segir þó að veðrið verði líklega áfram milt, sérstaklega á Suðurlandi. „Á þriðjudag er frostlaust á sunnanverðu landinu en fyrir norðan fer hann aðeins að síga í kringum frostmarkið. Þriðjudag og miðvikudag er þetta svona austanátt, líklega einhver bleyta sunnan til en líklega þurrt fyrir norðan.“

Hann segir að búast megi við vægu frosti á Norðurlandi á fimmtudag og mögulegum éljum. „Ef við tölum um næstu helgi gæti snjóað eitthvað fyrir norðan og austan en líklega verður áfram frostlaust á Suðurlandi.“ Næstu vikuna er því ekki von á snjókomu á höfuðborgarsvæðinu.

Haraldur vill lítið segja til um langtímahorfur og jólaveðrið í ár. „Það yrði ekkert að marka neina spá sem yrði gefin út núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert