Gæslan þarf að draga úr starfsemi

Fjárframlög til Landhelgisgæslunnar á næsta ári verða svipuð og í ár eða um 3,8 milljarðar króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag. Fram kemur í frumvarpinu að framlögin séu svipuð í ár og verið hafi árið 2009 á verðlagi þessa árs. Þau hafi hins vegar verið 15% lægri í ár en árið 2007 þegar stofnunin hafi fengið einna hæst framlög.

„Miðað við óbreyttar fjárveitingar að raungildi á árinu 2017 er krefjandi verkefni fyrir Landhelgisgæsluna að standa undir sínum helstu lögbundnu skyldum og því þarf að fækka um eina varðskipsáhöfn á næsta ári auk þess sem draga þarf úr annarri starfsemi,“ segir enn fremur í frumvarpinu.

Gæslan hafi farið fram á að rekstrarframlag yrði aukið um 300 milljónir króna til þess að bregðast við því að verkefni á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, eru ekki lengur fyrir hendi. Þetta sé það sem þurfi til þess að halda úti einu varðskipi allt árið og vera með þrjár þyrlur og eina flugvél í rekstri.

Getur tekið allt að 48 klukkustundir að komast á slysstað

Enn fremur segir að eins og staðan sé í dag geti tekið varðskip allt að 48 klukkustundir að komast á vettvang slysa eða óhappa innan efnahagslögsögunnar. Fjölga þurfi skipum og áhöfnum til þess að stytta viðbragðstíma niður í 24 klukkustundir.

Einungis séu tvær varðskipsáhafnir og varðskipin Þór og Týr gerð út til skiptis, hvort um helming ársins. Varðskipið Ægir sé ekki haffært. Kostnaður við að gera Ægi haffæran sé 80 milljónir króna og 300 milljónir þurfi til þess að standsetja hann fyllilega. Ekki gefist tækifæri til aukafjárveitinga vegna varðskipa árið 2017.

Leitar- og björgunarþjónusta þyrlna sé ekki að fullu trygg fyrir utan 20 sjómílur frá strönd, sjö til átta mánuði ársins, vegna fjárskorts. Útköllum hafi fjölgað mikið undanfarin ár og þá ekki síst vegna fjölgunar ferðamanna. Ekki gefist tækifæri til að auka fjárveitingar vegna þessa árið 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert