Mikilvægt að grynnka á skuldum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp næsta árs fyrir fjölmiðlafólki í …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp næsta árs fyrir fjölmiðlafólki í dag. mbl.is/Eggert

Samanlagður heildarafgangur ríkissjóðs fyrir árin 2014-2016 verður um 96 milljarðar króna, án stöðugleikaframlaga. Þá fara heildarskuldir ríkissjóðs úr 60% af vergri landsframleiðslu árið 2015 í 39% í árslok 2017. Gert er ráð fyrir því að hlutfallið verði 29% í árslok 2021.

Þetta kemur fram í frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fyrir Alþingi í dag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki úr 79 milljörðum árið 2015 í 69 milljarða árið 2017.

Raunhæft ef menn halda sig við efnið

Í kynningu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á frumvarpinu fyrr í dag kom fram að skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga gætu komist niður fyrir skuldaregluna, þ.e. niður fyrir 30% af vergri landsframleiðslu í árslok 2017. Sagði Bjarni það vel raunhæft ef menn héldu sig við efnið.

Stefnt er að því að opinberar skuldir lækki niður fyrir …
Stefnt er að því að opinberar skuldir lækki niður fyrir lögboðið hámark við lok næsta árs. Mynd/Fjármálaráðuneytið

Ítrekaði Bjarni þó að skuldastaða ríkissjóðs væri enn alvarleg. Sagði hann það að grynnka á skuldabyrðinni eitt af meginúrlausnarefnum fram undan í ríkisfjármálum. Þá er mikilvægt að ríkisfjármálin verði sveiflujafnandi fremur en sveiflumagnandi og hægi á eftirspurnaraukningu og þenslu sem fram undan er til að hagstjórnin varni ofhitnun og harðri lendingu yfirstandandi hagvaxtarskeiðs.

Sagði Bjarni úrslausnarnefnin kalla á góðan afgang næstu tvö árin, helst sem mestan. Það myndi hægja á heildareftirspurn og skila jafnt og þétt sjóðstreymi til að grynnka á skuldum eftir því sem árin líða.

Þá þarf að skoða hvort hægt sé að losa ríkissjóð úr gríðarmikilli fjárbindingu og töluverðri áhættu sem felst í því að eiga tvo af þremur viðskiptabönkum og nýta þau verðmæti til að lækka skuldir umtalsvert.

Skuldir í meðallagi en greiða mest í vexti

Bjarni bar skuldastöðu Íslands við ríki Evrópusambandsins þar sem fram kom að Ísland hafi verið í tólfta sæti yfir þau lönd sem skulda minnst, eða 60,4% af vergri landsframleiðslu. Grikkland tróndi á toppnum með 176,9% af vergri landsframleiðslu og fylgdu Portúgal, Írland og Ítalía í næstu sætum. En þegar vaxtakostnaður hins opinbera er skoðaður fyrir árið 2015 má sjá að Ísland greiðir 10,5% af tekjum sínum í vexti, meira en í nokkru ríki ESB, þó svo að skuldastaðan sé í meðallagi.

Sagði Bjarni að til þess að vega á móti halla á vaxtajöfnuðinum þurfi að skila ríkulegum afgangi á frumjöfnuði ríkissjóðs sem er meiri en hjá nokkru ríkja ESB og að brýnt væri að draga enn frekar úr skulda- og vaxtabyrðinni.

Heildarskuldir hins opinbera – ESB og Ísland 2015.
Heildarskuldir hins opinbera – ESB og Ísland 2015. Mynd/Fjármálaráðuneytið
Vaxtakostnaður hins opinbera – ESB og Ísland 2015.
Vaxtakostnaður hins opinbera – ESB og Ísland 2015. Mynd/Fjármálaráðuneytið



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert