Munurinn á við 2,5 skólaár

Svo virðist sem róður ungmenna af fyrstu kynslóð innflytjenda sé …
Svo virðist sem róður ungmenna af fyrstu kynslóð innflytjenda sé þungur hvað varðar möguleika þeirra til að uppfylla persónulegar, námslegar og samfélagslegar þarfir sínar hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil fjölgun hefur orðið á Íslandi á fjölda nemenda með erlendan bakgrunn. Aukning í fjölda innflytjenda í grunnskólum skýrir ekki dræmar niðurstöður Íslands í PISA-könnuninni en samkvæmt niðurstöðunum er þó töluverður munur á árangri innfæddra og innflytjenda.

Með innflytjendum er átt við fyrstu kynslóð innflytjenda, þ.e.a.s þá nemendur sem fæddir eru erlendis og eiga erlenda foreldra. Meðaltal í lesskilningi, stærðfræði- og náttúrufræðilæsi er mun lægra meðal innflytjenda en innfæddra. Er það staðan í flestum OECD-ríkjunum en Ísland er engu að síður undir meðaltali.

Lesskilningur fer versnandi

Í skýrslu Menntamálastofnunar segir að lesskilningur innflytjenda árið 2015 sé „mun lakari en lesskilningur þeirra fyrri ár og munar allt að 71 stigi miðað við árið 2000, sem samsvarar rúmlega tveimur skólaárum.“ Þá segir að þegar litið er til innflytjenda komi í ljós að meðalstigafjöldi þeirra hafi farið lækkandi frá árinu 2000. Munur milli innfæddra og innflytjenda er þá nánast tvöfalt meiri árið 2015 miðað við árið 2000 og fer úr 66 stigum í 115 stig.

OECD gerir ráð fyrir 40-45 stiga mun á milli skólaára og á þessi munur því við tvö og hálft skólaár milli innflytjenda og innfæddra. Í skýrslu Menntamálastofnunar segir: „Því má leiða líkum að því að róður 15 ára ungmenna af fyrstu kynslóð innflytjenda sé þungur hvað varðar möguleika þeirra til að uppfylla persónulegar, námslegar og samfélagslegar þarfir sínar hér á landi.“

PISA 2015 - ÍSLAND

Þarf að auka fjármagn

Í samtali við mbl.is sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra mikilvægt að huga að þessum þætti í móttöku innflytjenda.

„Það er alveg augljóst þegar við erum að taka á móti barnafjölskyldum að það þarf að fylgja fjármagn inn í menntakerfið til að tryggja að skólarnir séu færir um að veita þessa aukaþjónustu sem þarf til að börnin læri íslensku, læri að lesa og geti orðið fullir þátttakendur í samfélaginu og þar með gert íslenskt samfélag auðugra og betra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert