Rúmur milljarður vegna hælisleitenda

Varið verður rúmlega einum milljarði króna á næsta ári vegna hælisleitenda samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag eða 1.068 milljónum króna. Þetta er nær tvöföldun miðað við fjárlög þessa árs sem hjóða upp á 555,6 milljónir króna vegna málaflokksins. Hins vegar segir í frumvarpinu að í raun sé um að ræða lækkun til útlendingamála og hælisleitenda að teknu tilliti til fjárlaga og fjáraukalaga 2016.

Fram kemur í frumvarpinu að mikil fjölgun hælisleitenda hafi leitt til aukins kostnaðar. Umsóknir hælisleitenda fyrstu tíu mánuði þessa árs hafi verið í kringum 750 miðað við 275 á sama tíma fyrir ári. Kostnaður fylgi einnig nýrri löggjöf um útlendingamál. Fyrirséð sé að fjölga verði stöðugildum hjá Útlendingastofnun af þessum sökum að minnsta kosti tímabundið til þess að bregðast við stöðunni vegna fjölgunar innflytjenda og hælisleitenda.

„Gríðarleg fjölgun hælisleitenda á mjög skömmum tíma hefur ferið langt fram úr þeim húsnæðisúrræðum sem stofnunin hafði til ráðstöfunar. Á síðustu níu mánuðum hefur þurft að bregðast hratt við og eru dæmi um að grípa þurfti til neyðarúrræðis svo að hægt væri að koma öllum fyrir,“ segir enn fremur. Unnið sé að því að ná hagstæðari samningum um húsnæði fyrir hælisleitendur sem verði eitt af verkefnum Útlendingastofnunar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert