Skuldum börnunum okkar að gera betur

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir niðurstöðurn PISA-2015 mikil vonbrigði.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir niðurstöðurn PISA-2015 mikil vonbrigði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það eru auðvitað mikil vonbrigði fyrir okkur að þetta skuli vera staðan,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra um niðurstöður PISA-2015. „Þetta er þróun sem hefur staðið yfir frá árinu 2000. Það er ekki einfalt að greina nákvæmar ástæður þessa en það er ljóst að margir samverkandi þættir eru hér á ferðinni.“

Hrakað mikið frá upphafi mælinga

Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum PISA-2015 er að meðaltal í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúrufræðilæsi er verst á Íslandi, sé litið til Norðurlandanna. Meðaltalinu á Íslandi hefur hrakað mikið frá því að mælingar hófust árið 2006 og voru íslenskir nemendur undir meðaltali OECD-ríkjanna á öllum þremur sviðum árið 2015.

Frétt mbl.is: Íslenskum nemendum hrakar enn

Í samtali við mbl.is segir Illugi að læsisátak hafi nú þegar farið af stað en að nokkur ár muni taka þar til afraksturinn verði sýnilegur í PISA niðurstöðum. Þá sé mikilvægt að grípa til aðgerða á hinum sviðunum sem fyrst. „Það er mjög mikilvægt að grípa til aðgerða en það eru engar einfaldar lausnir sem að geta lagað þetta samstundis, þetta kallar á langtímahugsun.“

Að sögn Illuga mun sú vinna sem lögð hefur verið í læsisátakið verða nýtt í álíka aðgerðir á sviði stærðfræði og náttúruvísinda. „Ég held að við höfum þarna ágæta forskrift fyrir það sem þarf að gera varðandi önnur fög. Lesturinn er auðvitað grundvallaratriði og þess vegna réðumst við fyrst í að laga lesturinn en nýtum okkur svo reynsluna þaðan varðandi önnur fög.“

Illugi telur samstarf milli skólasamfélagsins og foreldra einnig skipta máli hvað þetta varðar. „Það sem kannski skiptir mestu máli er líka að við virkjum bæði skólasamfélagið og foreldrana og tryggjum að samstarf milli skóla og foreldra sé sterkt á þessu sviði. Við finnum að það hefur verið að gerast varðandi læsi og það skilar sér síðan yfir í annað nám.“

Mælir ekki allt

PISA mælir stærðfræðilæsi, lesskilning og náttúrufræðilæsi og segir Illugi mikilvægt að hafa í huga að aðrir þættir skipti máli í skólastarfi. „PISA er ekki hinn endanlegi mælikvarði á skólastarf, það er margt annað sem gerist í skólanum sem að skiptir miklu máli og er ekki verið að mæla í þessum rannsóknum. PISA mælir ekki sköpunargáfu, frumkvæði, félagsgreind og aðra slíka þætti sem að skipta mjög miklu máli í þroskaferli barna.“

Þegar öllu er á botninn hvolft segir Illugi niðurstöðurnar þó óásættanlegar fyrir íslenskt samfélag. „Við eigum að geta gert miklu betur. Við skuldum börnunum okkar að gera miklu betur en þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert