Mikið misræmi er á milli þingsályktunar um samgönguáætlun 2015-2018 sem samþykkt var á Alþingi í október og fjármálaáætlunar. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2017 sem lagt var fram á þingi í dag en misræmið á næsta ári nemur rúmum 15 milljörðum króna.
Þar segir enn fremur að að óbreyttu þurfi að skera samgönguáætlun niður sem þessu nemi. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að heildarframlag til samgöngumála verði 27,9 milljarðar króna og lækkar um 681 milljón króna frá fjárlögum yfirstandandi árs.