3,8 milljarða áhrif skattabreytinga

Katrín Jakobsdóttir spurði Bjarna Benediktsson út í fjárlagafrumvarpið.
Katrín Jakobsdóttir spurði Bjarna Benediktsson út í fjárlagafrumvarpið. mbl

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í umfræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi hvort skynsamlegt væri að ráðast í skattalækkanir á sama tíma og uppsöfnuð þörf sé á auknum framlögum til rekstrar og opinberrar fjárfestingar. Jafnframt væru merki um vaxandi þenslu í hagkerfinu.

Bjarni sagði að ákveðið hafi verið að hafa skattabreytingar þrepaskiptar til að áhrifin kæmu ekki fram öll í einu.  „Ég tel að það hafi verið ábyrg nálgun,“ sagði hann.

Nefndi hann að lækkun neðsta þreps væri mikilvæg kjarabót, einnig brottfall miðþrepsins. Hann sagði ráðstafanirnar hafa 3,8 milljarða áhrif á fjárlögin og það séu „algjör lágmarksáhrif í stóra samhengi hlutanna“.

Bætti hann við að niðurfelling tolla komi framleiðslufyrirtækjum á Íslandi til góða, sem og verslun og neytendum.

Katrín greindi frá því að samgönguáætlun væri ekki hluti af fjárlögunum og spurði hvernig ætti að afla tekna fyrir þeirri fjárfestingu.

„Við erum að leggja til að krónutölugjöld hækki á næsta ári umfram verðlag. Í því felst mótvægisaðgerð. Við verðum að kunna okkur magamál í útgjöldum. Við getum ekki gert allt í einu,“ sagði hann og nefndi að nýbúið sé að „stórhækka“ laun og að næst eigi að ráðast í að byggja nýjan Landspítala. „Auðvitað þýðir þetta að við erum að forgangsraða í fjármunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert