Mótmæla lokun Laugavegar

Neðri hluta Skólavörðustígs og Laugavegar verður lokað.
Neðri hluta Skólavörðustígs og Laugavegar verður lokað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðbæjarfélagið, sem er hagsmunafélag atvinnurekenda og eigenda atvinnuhúsnæðis í miðbæ Reykjavíkur, mótmælir harðlega fyrirhuguðum lokunum á neðri hluta Skólavörðustígs og Laugavegar nú á aðventu.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá félaginu en neðri hluti Skólavörðustígs og Laugavegar verða gerðir að göngugötum á aðventunni.

Þar segir enn fremur að Laugavegi og Skólavörðustíg hafi einnig verið lokað í fyrra á sama tíma, þrátt fyrir harðorð mótmæli verslunareigenda og annarra rekstraraðila, en reynslan hefur sýnt að verslun dregst verulega saman þegar götunum er lokað, sér í lagi að vetrarlagi, þegar allra veðra er von.

„Því miður hefur ekkert mark verið tekið á ítrekuðum athugasemdum rekstraraðila og ljóst að borgaryfirvöld skortir verulega skilning á þörfum atvinnurekstrar í miðbænum, en tíminn í aðdraganda jóla er eins og gefur að skilja mikilvægasti tími ársins fyrir flestar verslanir og því enn brýnna en ella að aðgengi að verslunum sé gott,“ segir í yfirlýsingunni.

„Á annað hundrað eigendur fyrirtækja og atvinnuhúsnæðis á þessu svæði hafa ritað undir mótmælaskjal þar sem öllum lokunum gatna er mótmælt. Borgaryfirvöld hafa virt sjónarmið þessa hóps að vettugi, en mörg okkar höfum staðið vaktina í miðbænum um áraraðir, jafnvel um áratugaskeið og byggt þar upp fjölbreytta atvinnustarfsemi og þar með blómlegt mannlíf. Öflug atvinnustarfsemi nær ekki að þroskast og dafna í miðbænum nema með góðu aðgengi,“ segir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert