Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Viðreisn­ar, benti á það í umræðu um fjár­laga­frum­varpið á Alþingi að vaxta­kostnaður ís­lenska rík­is­ins væri lang­hæst­ur í Evr­ópu og mun hærri en á Grikklandi, Spáni, í Portúgal og á Írlandi.

„Þó að fari allt á besta veg hér á Íslandi mun vaxta­kostnaður Íslands vera áfram mjög hár. Það er að mínu mati vegna þess að okk­ur vant­ar trú­verðuga pen­inga­mála­stefnu,“ sagði hún og spurði Bjarna Bene­dikts­son fjár­málaráðherra hvað hægt sé að gera til að lækka „þessa óþolandi vaxta­byrði“ rík­is­ins, sem og al­menn­ings og fyr­ir­tækja í land­inu.

Þenslu­merki meg­in­rök­semd­in

Bjarni svaraði því þannig að fjár­fest­ing hafi vaxið mikið á Íslandi und­an­far­in ár, einka­neysla hafi tekið við sér og verðbólga sé lág, fyrst og fremst vegna styrk­ing­ar krón­unn­ar. Þenslu­merki séu meg­in­rök­semd­in fyr­ir vaxta­stig­inu sem Seðlabank­inn hef­ur haldið und­an­far­in miss­eri.

„Ég er hins veg­ar al­veg sann­færður um að ef op­in­ber­ir aðilar sýna aga í fjár­mála­stjórn sinni og ef okk­ur tekst að fá nýj­an ramma um vinnu­markaðinn þannig að kjara­samn­ing­ar fær­ist nær því að vera út­deil­ing á þeirri fram­leiðniaukn­ingu sem er að verða hverju sinni, því svig­rúmi sem er til staðar hverju sinni, höf­um við skapað for­send­ur fyr­ir veru­legri lækk­un vaxta og stöðugri verðbólgu á Íslandi,“ sagði Bjarni.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra. mbl.is/​Eggert

Rúss­íbanareið Íslend­inga

Þor­gerður Katrín sagði þá að Íslend­ing­ar væru alltaf í ákveðinni rúss­íbanareið, miðað við sög­una. „Það er m.a. út af krón­unni, út af þeirri pen­inga­mála­stefnu sem rík­ir hér á landi, og sama hversu vel­viljuð við erum oft með vinnu­markaðinn, með betri lög um op­in­ber fjár­mál, þá þarf að okk­ar mati í Viðreisn að end­ur­skoða pen­inga­mála­stefn­una. Þess vegna brenn­ur sú spurn­ing svo­lítið á mér og fleir­um: Eru menn reiðubún­ir að skoða og fara heild­stætt yfir pen­inga­mála­stefnu Íslands með það að mark­miði að lækka vaxta­byrði lands­ins og lækka vaxta­byrði heim­il­anna í land­inu?“ sagði hún.

Bjarni sagðist þá telja nauðsyn­legt að fara yfir nýju pen­inga­mála­stefn­una. Velta þurfi fyr­ir sér hversu stíft eigi að styðjast áfram við verðbólgu­mark­mið og að hvaða leyti ætti að horfa í aukn­um mæli til efna­hags­legs stöðug­leika.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka