Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, benti á það í umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi að vaxtakostnaður íslenska ríkisins væri langhæstur í Evrópu og mun hærri en á Grikklandi, Spáni, í Portúgal og á Írlandi.

„Þó að fari allt á besta veg hér á Íslandi mun vaxtakostnaður Íslands vera áfram mjög hár. Það er að mínu mati vegna þess að okkur vantar trúverðuga peningamálastefnu,“ sagði hún og spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvað hægt sé að gera til að lækka „þessa óþolandi vaxtabyrði“ ríkisins, sem og almennings og fyrirtækja í landinu.

Þenslumerki meginröksemdin

Bjarni svaraði því þannig að fjárfesting hafi vaxið mikið á Íslandi undanfarin ár, einkaneysla hafi tekið við sér og verðbólga sé lág, fyrst og fremst vegna styrkingar krónunnar. Þenslumerki séu meginröksemdin fyrir vaxtastiginu sem Seðlabankinn hefur haldið undanfarin misseri.

„Ég er hins vegar alveg sannfærður um að ef opinberir aðilar sýna aga í fjármálastjórn sinni og ef okkur tekst að fá nýjan ramma um vinnumarkaðinn þannig að kjarasamningar færist nær því að vera útdeiling á þeirri framleiðniaukningu sem er að verða hverju sinni, því svigrúmi sem er til staðar hverju sinni, höfum við skapað forsendur fyrir verulegri lækkun vaxta og stöðugri verðbólgu á Íslandi,“ sagði Bjarni.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Rússíbanareið Íslendinga

Þorgerður Katrín sagði þá að Íslendingar væru alltaf í ákveðinni rússíbanareið, miðað við söguna. „Það er m.a. út af krónunni, út af þeirri peningamálastefnu sem ríkir hér á landi, og sama hversu velviljuð við erum oft með vinnumarkaðinn, með betri lög um opinber fjármál, þá þarf að okkar mati í Viðreisn að endurskoða peningamálastefnuna. Þess vegna brennur sú spurning svolítið á mér og fleirum: Eru menn reiðubúnir að skoða og fara heildstætt yfir peningamálastefnu Íslands með það að markmiði að lækka vaxtabyrði landsins og lækka vaxtabyrði heimilanna í landinu?“ sagði hún.

Bjarni sagðist þá telja nauðsynlegt að fara yfir nýju peningamálastefnuna. Velta þurfi fyrir sér hversu stíft eigi að styðjast áfram við verðbólgumarkmið og að hvaða leyti ætti að horfa í auknum mæli til efnahagslegs stöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert