Mikil uppbygging er áformuð við Elliðavog og á Ártúnshöfða. Efnt var til hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins og voru úrslit kunngjörð í fyrrasumar. Í vinningstillögunni er gert ráð fyrir u.þ.b. 816.200 fermetra viðbótar byggingarmagni og 5.100 íbúðum í 3-5 hæða húsum. Hverfið verður sambland íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.
„Svæðið er eitt af lykiluppbyggingarsvæðum í borginni og gegnir mikilvægu hlutverki gagnvart því markmiði aðalskipulagsins að þétta byggð í borginni, m.a. þykir af þeim sökum tímabært að hefja vinnu við endurþróun þess, en fyrirsjáanlegt er að verkefnið er í heild sinni langtímaverkefni,“ sagði í kynningu Reykjavíkurborgar þegar úrslitin voru kunngjörð í júní 2015.
Tillaga unnin af Arkís arkitektum ehf., Landslagi ehf. og Verkís ehf. með aðstoð dr. Bjarna Reynarssonar varð hlutskörpust.
Skipulagshugmyndinni er lýst þannig:
„Landslag á Ártúnshöfða skiptir hverfinu í tvö meginsvæði, byggðina uppi á höfðanum og byggðina niðri við voginn. Grænt belti teiknar upp gömlu strandlínuna og brún höfðans og myndar jákvæðan suð- og austlægan jaðar fyrir neðri byggðina. Ártúnshöfðinn er dreginn sérstaklega fram sem kennileiti með því að færa sjóinn aftur inn að honum með „Elliðahöfn“ sem sker sig inn í landfyllingu og skapar skilyrði fyrir lifandi byggð í nýju bryggjuhverfi sem snýr vel við sól og í skjóli fyrir hafgolu. Áberandi kennileitisbyggingar og útsýnispallur fremst á höfðanum styrkja þessa mynd. Borgarlínan um Stórhöfða er meginæð á efra svæðinu, en Sævarhöfðinn hlykkjast um neðra svæðið. Framlengdur Breiðhöfði liggur sem sjónás í gegnum efri og neðri byggðina þvert á Stórhöfða og Sævarhöfða og sameinar svæðin tvö. Frá Breiðhöfða er útsýni yfir Grafarvog til Esjunnar. Þessar þrjár götur fá yfirbragð breiðstræta og er Stórhöfðinn þeirra breiðastur til að rúma samgöngulausn sem valin verður fyrir borgarlínuna.
Meginkjarnar byggðarinnar myndast við torg þar sem Breiðhöfðinn sker Stórhöfða (Krossmýrartorg) og norðan gatnamóta Breiðhöfða og Sævarhöfða (Bryggjutorg). Efri byggðin nýtur útsýnis og almenningsgarða og torga, en sú neðri nálægðar við sjó og aðliggjandi náttúruperlur í Elliðaárdal og Grafarvogi. Svæðin njóta nálægðar hvort við annað. Geirsnefi verði umbreytt í skjólgott og fjölbreytilegt útivistarsvæði fyrir aðliggjandi byggð og sem framlenging á útivistar- og náttúrusvæðinu í Elliðaárdal.“
Skipulagstillagan hefur verið unnin áfram og þróuð, samkvæmt upplýsingum Björns Guðbrandssonar arkitekts hjá Arkís.
Vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á svæðinu þurfa nokkur fyrirtæki að flytja starfsemi sína annað, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu. Flest tengjast þau byggingariðnaði og framkvæmdum, þ.e. efnissalar, malbikunarframleiðandi og steypustöðvar.
Björgun ehf. verður fyrsta fyrirtækið sem flytur starfsemi sína. Í október síðastliðnum voru undirritaðir samningar milli Faxaflóahafna sf. og Björgunar ehf. um rýmingu fyrirtækisins af lóðinni Sævarhöfði 33 og gerð 25.000 fermetra landfyllingar sem fyrsta áfanga í stækkun Bryggjuhverfisins. Malarefni á lóðinni verður notað í landfyllinguna. Reykjavíkurborg vinnur nú að því að ljúka umhverfismati .