Ragnheiður Sara sigraði í Dubai

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er stolt af sigrinum í Dubai þar …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er stolt af sigrinum í Dubai þar sem hún hélt 50 stiga forystu á næsta keppanda alla fjóra daga mótsins. Ljósmynd/Skjáskot úr myndbandinu

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir fór með sigur af hólmi í kvennaflokki á Crossfit-leikunum Dubai Fitness Championship, sem lauk í dag. Annie Mist Þórðardóttir, sem í tvígang hefur orðið heimsmeistari í Crossfit, varð í þriðja sæti og Björgvin Guðmundsson var efstur íslensku karlanna, í 7. sæti.

„Ég er alveg ótrúlega stolt af árangrinum og ég er eiginlega enn þá að átta mig á þessu,“ sagði Ragnheiður Sara í samtali við mbl.is. Hún náði forystu strax á fyrsta degi og hélt 50 stiga forskoti á næsta keppanda, fyrrverandi heimsmeistarann Samönthu Briggs, alla fjóra daga mótsins þrátt fyrir að fá slæma matareitrun. 

Mættu orkulausar til keppni í gær

„Þetta gekk mjög vel upp,“ segir hún og kveðst þó ekki hafa búist við að halda titlinum miðað við hve veik hún var í gær. „Við fengum fjórar stelpur matareitrun og vorum ælandi  alla nóttina og mættum svo algjörlega orkulausar til keppni í gær. Við náðum svo að ýta hver annarri áfram í dag.“

Ragnheiður Sara er í góðu keppnisformi þessa dagana, en ekki er nema hálfur mánuður frá því að hún tók ásamt þeim Björgvini og Katrínu Tönju Davíðsdóttur, núverandi heimsmeistara, fyrir hönd Evrópu þátt í svonefndu invitations liðamóti, þar sem evrópska liðið fór með sigur af hólmi. Þar þjálfaði fyrrverandi heimsmeistarinn Samantha Briggs Evrópuliðið, en Ragnheiður Sara hafði einmitt sigur á henni í Dubai.

„Þannig að það er gaman að hafa náð að vinna það og koma svo beint hingað og ná að vinna þetta líka,“ segir hún.

Ragnheiður Sara segist hafa litið á Dubai-mótið sem undirbúning fyrir …
Ragnheiður Sara segist hafa litið á Dubai-mótið sem undirbúning fyrir næstu heimsleika í Crossfitt, en hún hefur í tvígang orðið í þriðja sæti á því móti. mbl.is

Mikið af öðruvísi æfingum

Ragnheiður Sara segir Dubai-mótið vera nokkuð sérstakt, m.a. fyrir það að þar sé mikið af þolæfingum sem séu ekki hennar sterkasta hlið. „Þetta var mjög erfið keppni. Við byrjuðum á því að hjóla 32 km og ég hef aldrei hjólað svona langt áður, síðan var kafsund þar sem við áttum að ýta plötu á undan okkur í kafsundi.“

Hún segir þetta vera svona öðruvísi greinar sem gætu alveg komið upp á næstu heimsleikum og hún hafi því litið á mótið sem undirbúning fyrir slíkt, auk þess að vera tækifæri að sjá hvar hún stæði í samanburði við aðra keppendur. „Síðan voru veikindin kannski ekki alveg að bæta,“ segir Ragnheiður Sara og bætir við: „þannig að ég var ekkert mjög vongóð fyrir fram, en þetta gekk bara allt upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert