Enginn snjór sem tollir í kortunum

Jólasnjór í Reykjavík í fyrra. Svo virðist sem hann sé …
Jólasnjór í Reykjavík í fyrra. Svo virðist sem hann sé ekki á leiðinni til okkar á næstu dögum en enn eru þó tæpar tvær vikur til jóla. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það verða miklar sviptingar í veðrinu í vikunni. Hingað ganga lægðir hver eftir annarri og inn á milli fer hann í suðvestanátt með aðeins kaldara lofti. Þá geta komið einhver él en engin snjókoma,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is, spurð hvort það séu einhverjar líkur á að Íslendingar fái til sín jólasnjó á næstunni.

Sjá veðurvef mbl.is.

Svo virðist ekki vera en Helga segir þann snjó sem von er á í vikunni ekki vera neitt sem tolli og á það við um mestallt land.

„Næstu daga erum við aðallega að horfa á úrkomu sunnan- og vestanlands. Það skiptist á suðaustanátt með rigningu og suðvestanátt með skúrum eða éljum.“

Hún segir veðrið næstu helgi, síðustu helgina fyrir jól, frekar óljóst. Í vikunni verða þessar suðlægu áttir í aðalhlutverki en enginn snjór sem helst, alla vega enn sem komið er. 

Að sögn Helgu er mjög erfitt að segja til um jólaveðrið, nú tæpum tveimur vikum fyrir jól.

„Það er mikil óvissa í veðrinu. En við erum föst í þessum suðlægu áttum og mun það líklegast halda áfram næstu daga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert