Ólafur Þór Hauksson, sem gegndi starfi sérstaks saksóknara, segir að álagið sem fylgdi þeirri vinnu hafi verið það mikið að starfsfólk hans veiktist. Fjórum sinnum hafi hann horft á eftir samstarfsmönnum fara upp í sjúkrabíl vegna veikinda í kjölfar álags.
Þetta segir Ólafur m.a. í ítarlegri grein í Financial Times. Í greininni er farið yfir hrunmálin á Íslandi og meðferð þeirra fyrir dómstólum.
Blaðamaðurinn veltir m.a. fyrir sér í greininni hvort embætti sérstaks saksóknara, á lítilli eyju þar sem allir tengjast, hafi ekki verið vanþakklátt starf?
„Enginn vildi það,“ segir Ólafur um ákvörðun sína að taka verkefnið að sér. „Kannski var ég of þröngsýnn er ég ákvað að sækja um. Kannski vissu allir aðrir að þetta yrði hræðilegt. Ég veit það ekki. En mér fannst þetta heillandi.“
Ólafur segist hafa byrjað með fáa starfsmenn, aðeins þrjá og „engar tölvur, enga síma, ekki neitt.“ Árið 2013 voru starfsmenn embættisins þó orðnir 109. Í sumum málunum sem embættið vann að hafi starfsmenn verið meira í vinnunni en heima hjá sér. „Það er slæmt að vinna á kvöldin og um helgar, það er slítandi. Það komu upp tilfelli í vinnunni þar sem starfsmenn okkar urðu alvarlega veikir. Ég hef fjórum sinnum séð á eftir einhverjum starfsmanna minna á leið upp í sjúkrabíl. Það er ekki auðvelt, svo þú finnur smávegis þann þrýsting sem fylgir starfinu.“
Í greininni er einnig farið yfir stjórnmálaástandið hér á landi. Ólafur er spurður hvort stjórnmálamenn hafi gloprað niður tækifærinu á að vinna sér traust almennings eftir hrunið. „Kannski ætti starf stjórnmálamannanna að vera gagnsærra, það hefðu átt að vera færri hneykslismál og meiri áhersla lögð á að byggja upp traustið að nýju,“ svarar Ólafur.