Frostlög sem freistar hvorki dýra né manna er að finna hér á landi, þó að evrópskar reglugerðir fyrirskipi ekki notkun á beisku aukaefni, svonefndum „bittering agent“, sem gerir frostlöginn bragðvondan. Bandarískur frostlögur þarf hins vegar að innihalda þetta bragðvonda aukaefni.
Greint var frá því fyrir helgi að grunur léki á því að þrír kettir hefðu depist úr frostlagareitrun á svæðinu í kringum Hellisgerði í Hafnarfirði og hafði mbl.is eftir dýraverndarfélaginu Villiköttum í gær að nú væri talið að sex kettir hefðu drepist af völdum eitrunar.
Arndís Kjartansdóttir, ritari í stjórn Villikatta, benti á að sumstaðar erlendis tíðkaðist að setja beiskan vökva út í frostlöginn til að halda dýrum frá, en frostlögur hefur að jafnaði sætukeim sem dýrum og jafnvel börnum finnst bragðgóður.
Frétt mbl.is: Segja sex ketti hafa drepist af völdum eitrunar
„Ég veit til þess að beiskur vökvi er settur út í frostlöginn í Bandaríkjunum og það hefur jafnvel verið sett í lög í sumum ríkjum, þar sem þetta veldur það miklum eitrunaráhrifum hjá dýrum og börnum,“ sagði Arndís í samtali við mbl.is.
Samkvæmt óformlegri könnun á stöðu mála hjá stærstu innflytjendum frostlagar hér á landi er bragðvondan frostlög að finna hjá N1, Poulsen og Kemi. Hjá Skeljungi og Olís könnuðust menn ekki við þessa viðbót, né heldur að slík umræða hefði farið fram.
Þórarinn Þórarinsson, vörustjóri á Iðnaðarsviði hjá N1, segir frostlög N1 koma frá birgi í Bretlandi, sem hafi sett svonefndan „bittering agent“ út í frostlöginn.
„Okkar birgir á í miklum viðskiptum við Frakkland og þar er þetta skyldað samkvæmt lögum,“ segir Þórarinn og bendir á að hálfgerður faraldur hafi verið í Bretlandi í fyrra, þar sem frostlögur var notaður til að eitra fyrir á annað hundrað ketti, m.a. fyrir kött þingmannsins Graham Jones.
„Við flytjum inn talsvert af bandarískum frostlegi og þar er þetta í lögum, en evrópskar reglur kveða ekki á um slíkt,“ segir sagði Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kemi.
Poulsen flytur allan sinn frostlög inn frá Bandaríkjunum og inniheldur hann því beiska efnið.
„Nýrri gerðir af frostlegi eru hins vegar ekki jafn ætandi. Þær eru unnar úr náttúruspíra og eru lífrænar,“ segir Hermann og bætir við að það þurfi þó alltaf að fylgja leiðbeiningum bílaframleiðenda varðandi val á frostlegi því annars sé hægt að valda miklu tjóni.
„Í fljótu bragði sýnist mér í fínu lagi að skoða þetta, ef það hefði hvorki neikvæð áhrif á virkni frostlagarins né mikinn viðbótarkostnað í för með sér,“ sagði Þorsteinn Ólafsson, vörustjóri efnavöru hjá Olís, þegar mbl.is spurði hvort hann teldi ástæðu til að athuga með notkun á beiska efninu.
„Það er hins vegar ábyrgðarhluti að fara að setja eitthvað út í frostlöginn, því þetta er alltaf að verða fínni og fínni framleiðsla þar sem verið er að setja ýmis efni út í sem verja t.d. vélina þannig að við myndum ekki gera slíkt nema framleiðandinn mælti með því.“