Búnir undir mögulega spennuhækkun

Unnið að lagningu strengjanna.
Unnið að lagningu strengjanna. Ljósmynd/Landsnet

Vinnu er lokið við að styrkja jarðstrengi í Eskifjarðalínu 1, milli Eskifjarðar og Eyvindarár við Egilsstaði, Stuðlalínu 2, milli Stuðla í Reyðarfirði og Eskifjarðar, og Neskaupstaðarlínu 1, milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar.

Jarðstrengirnir liggja á milli loftlínu og tengivirkis í Eskifirði og Norðfirði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti.

„Markmið verkefnisins var að auka orkuflutningsgetuna þannig að jarðstrengirnir við tengivirkið á Eskifirði og Norðfirði verði ekki takmarkandi heldur í samræmi við flutningsgetu loftlínanna sem þeir tengjast. Nýju jarðstrengirnir eru gerðir fyrir 132 kV spennu þó að þeir séu nú reknir á 66 kV spennu. Með þessu er búið að undirbúa mögulega spennuhækkun á Eskifjarðarlínu 1 og Stuðlalínu 2,“ segir í tilkynningunni.

Undirbúningur að verkefninu hófst 2015 en byrjað var á því að skipta út jarðstrengjum við tengivirkið á Eskifirði 2016. Verkinu lauk í síðustu viku, þegar Neskaupstaðarlína 1 var tekin í rekstur.

„Lokafrágangur á flugvellinum í Norðfirði dróst vegna veðurs en í síðustu viku náðist að ljúka öllum frágangi í og við flugvöllinn enda veðurskilyrði óvenjugóð miðað við árstíma.

Úttekt á yfirborðsfrágangi á strengleiðum fer fram næsta vor og þá verður unnið að úrbótum ef þörf þykir.

„Nýju jarðstrengirnir koma í staðinn fyrir eldri strengi sem voru of afkastalitlir og sköpuðu því flöskuháls í kerfinu á nokkrum stöðum.  Þessi framkvæmd við endurnýjun jarðstrengjanna skiptir miklu máli fyrir raforkuöryggi á svæðinu,“ segir Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert