Alþjóðasamfélagið verður að grípa inn í hræðilega glæpi hersveita Bashar al-Assad gegn mannkyninu, að sögn Khattabs al-Mohammad, sýrlensks flóttamanns sem nú býr á Akureyri. Haldi Assad hins vegar að honum hafi tekist að brjóta uppreisnina gegn sér á bak aftur segir Khattab að honum skjátlist.
Ófremdarástand ríkir nú í sýrlensku borginni Aleppo þar sem stjórnarher Assad með fulltingi rússneskra loftárása og vopnaðra íranskra hópa er kominn á fremsta hlunn með að hrifsa austurhluta borgarinnar úr höndum uppreisnarmanna. Sameinuðu þjóðirnar telja sig hafa sannanir um að hersveitirnar hafi framið fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Allt að hundrað þúsund óbreyttir borgarar eru sagðir fastir inn í þeim borgarhlutum sem uppreisnarmenn ráða enn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Í samtali við Mbl.is segir Khattab að fréttirnar sem berist frá heimaborg hans Aleppo séu hræðilegar. Lík liggi eins og hráviði á götum austurhlutans og enginn geti gert neitt. Hann segist ekki hafa fengið beinar fréttir frá fólki sem hann þekkir í borginni, aðeins á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum. Hann eigi erfitt með svefn vegna atburðanna í Aleppo.
„Þeir koma fram við fólkið sem þarna er sem hryðjuverkamenn þannig að það er réttlætanlegt fyrir þeim að drepa það. Þeir eru að drepa svo marga,“ segir Khattab sem telur ljóst að borgin muni falla endanlega í hendur stjórnarhersins eftir að Rússar og Kínverjar beittu neitunarvaldi til að stöðva vopnahléstillögu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku.
Khattab telur alþjóðasamfélagið lamað af neitunarvaldi Rússa og Kína. Þá viti allur heimurinn að fjöldi ríkja; Íran, Írak, Afganistan, Rússland og Norður-Kóreu, taki þátt í aðgerðum stjórnarhersins. Hann gagnrýnir vesturveldin fyrir að tala mikið um ástandið í Sýrlandi en það sé hins vegar til einskis enda hafi ekkert gerst enn.
„Allur heimurinn, þar á meðal arabaríkin, verða að gera eitthvað og senda hermenn til að stöðva fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Þetta er ekki einhver bíómynd sem þú horfir á til enda. Þetta er hræðilegur glæpur gegn mannkyninu. Ég vona að öll heimsbyggðin, ekki bara vestræn ríki því þetta er ekki bara á þeirra ábyrgð, geri eitthvað,“ segir hann.
Friðarumleitanir hafi engu skilað fram að þessu. Beita þurfi einhvers konar valdi til þess að friða ástandið.
„Við erum á móti mannvígum, hvort sem þau eru framin af stjórnvöldum eða öðrum hópum, en það er engin lausn sjáanleg. Hvernig á að fá Assad til að hætta að drepa fólk? Það er búið að reyna það í sex ár en hann heldur aðgerðum sínum áfram,“ segir Khattab.
Þrátt fyrir að stjórnarherinn nái Aleppo aftur á sitt vald telur Khattab það ekki marka endalok uppreisnarinnar gegn Assad forseta.
„Auðvitað ekki. Þetta er ekki borgarastríð sem er hægt að ljúka á einum stað. Þetta er bylting gegn þessum einræðisherra. Hann getur unnið á einum stað en hann mun tapa á mörgum öðrum. Fólk er að berjast fyrir frelsi. Ég er viss um að sýrlenska þjóðin mun berjast til loka,“ segir hann.
Khattab vonast til þess að stríðsátökunum sem hafa plagað heimaland hans frá árinu 2011 og leiddu til þess að hann flúði til Íslands ljúki strax. Hann segist hins vegar vita að þess sé ekki að vænta.
„Ef Assad og stuðningsmenn hans halda að þeir muni sigrast á Sýrlendingum þá skjátlast þeim. Þeir munu tapa á endanum. Hvenær sem einræðisherrar reyna að ná stjórninni þá missa þeir hana. Þetta gengur í gegnum alla söguna, einræðisherrar vinna aldrei,“ segir Khattab.