Hætta að selja 30% af flugeldunum

Björgunarsveitirnar þurfa að aðlaga sig að reglum Evrópusambandsins.
Björgunarsveitirnar þurfa að aðlaga sig að reglum Evrópusambandsins. mbl.is/Árni Sæberg

Um 30% af vörum á flugeldamarkaði Slysavarnarfélagins Landsbjargar sem verða fáanlegar fyrir þessi áramót verða ekki fáanlegar á sama tíma að ári. Ástæðan er sú að þá þurfa Íslendingar að fara eftir kröfum Evrópusambandsins um að allir flugeldar þurfi að uppfylla svokallaða CE-stöðlun.

Þetta þýðir að ekki má lengur selja þær tertur og bombur sem eru í fjórða og kraftmesta flokki flugelda sem Landsbjörg selur. Í þeim flokki er 21 mismunandi tegund af tertum og bombum sem Landsbjörg selur undir yfirheitinu „Bardagar og risatertur“. Þær kosta á bilinu 30-73 þúsund krónur.

Í þessum flokki eru meðal annars „100 skota kaka“, „Örlygsstaðabardagi“, „Víg Snorra Sturlusonar“ og „Ingólfsbardagi“.

Fjallað var um aðlögun Íslands að reglugerð ESB í DV í morgun. 

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, tekur fram að þrátt fyrir að 30% af vörunum sem núna eru í boði verði það ekki á næsta ári þá munu aðrar koma í staðinn, sem reyndar verða kraftminni.  

Stærstu bomburnar verða ekki sprengdar á næsta ári.
Stærstu bomburnar verða ekki sprengdar á næsta ári. mbl.is/Eggert

Breiddin hjálpar til

Þorsteinn segir það hjálpa Landsbjörg að þau hafa ávallt boðið upp á mikla breidd í flugeldasölu og því mun þessi nýja reglugerð ekki hafa mjög mikil áhrif á þau. „Við höfum verið að undirbúa okkur fyrir þetta í töluverðan tíma. Við erum með margvíslega sérframleiðslu fyrir okkur úti og um miðjan janúar á næsta ári þegar við förum að gera okkar pantanir tekur allt mið af þessum fyrirhuguðu breytingum,“ segir Þorsteinn.

Spurður út í mögulegt tekjutap vegna breytinganna kveðst hann ekkert geta sagt til um það fyrr en reynsla kemur á nýju vörurnar sem boðið verður upp á á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert