Þórólfur Guðnason, sviðsstjóri sóttvarna hjá embætti landlæknis, segir þátttöku í almennum bólusetningum barna góða. Þó megi enn gera betur.
„Vandamálið er að þátttaka í bólusetningum er ekki alveg nógu mikil á ákveðnum aldri. Þetta er tengt ákveðnu innköllunarkerfi sem við verðum að standa okkur betur í. Krakkar eru orðnir eldri og mæta ekki í bólusetningu og svo gleymist að koma með þá.“
Embætti landlæknis gaf á dögunum út skýrslu um sögu bólusetningar á Íslandi. Þar kemur fram að 96-97% foreldra vilji láta bólusetja börnin sín samkvæmt íslensku fyrirkomulagi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.