Veður verður umhleypingasamt næstu daga en fer síðan kólnandi í næstu viku. Tíu dagar eru til jóla og mörg jólabörn orðin úrkula vonar um að jólin verði hvít. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir alls ekki útilokað að snjókorn falli á allt og alla á jólunum.
„Næstu daga verða miklar umhleypingar í veðrinu en lægðirnar koma hver á fætur annarri,“ segir Theodór Freyr Hervarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Það verður mjög vindasamt, sérstaklega sunnan- og vestanlands, og við fáum að sjá frekar þunga daga, eins og í dag, fram yfir helgi,“ bætir Theodór við en dimmt er yfir höfuðborgarsvæðinu og talsverð rigning og vindur hefur einkennt daginn.
Veður fer kólnandi í næstu viku og spár gera ráð fyrir frosti á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudagskvöld, 20. desember. „Í næstu viku þá er hann heldur að fara kólnandi. Tölurnar verða mikið til rauðar fram í næstu viku en þá gætum við farið að sjá einhvern snjó sem gæti sest á jörðu,“ segir Theodór. Hann segir aðfangadag og jóladag ekki komna inn í spágluggann sem veðurfræðingar hafi en þó sé hægt að sjá einhverjar vísbendingar. Aðspurður segir Theodór að möguleiki sé að jólin verði hvít:
„Það er alls ekki útilokað.“
Hann segir að spám beri ekki saman um hvernig viðra eigi á Þorláksmessu. „Það lítur út fyrir að þá verði norðanátt og hún geti jafnvel verið hvöss. Spám ber einna helst saman um að það verði kaldara í næstu viku en ekki um veðrið frá degi til dags.“