Árlegt öryggisnámskeið Securitas fyrir starfsmenn verslana í Kringlunni var haldið í byrjun mánaðarins þar sem meðal annars voru gefin góð ráð til að stemma stigu við þjófnuðum.
Það er þekkt staðreynd að þeim fjölgar fyrir jólin, samhliða auknum fjölda fólks sem sækir verslunarmiðstöðina heim.
Halldór Gunnar Pálsson, öryggisstjóri Kringlunnar, segir að stolið sé úr langflestum verslunum þar. „Auðvitað eru fatabúðirnar vinsælastar, kannski út af því að það er mest af þeim, en það er stolið úr langflestum verslunum,“ segir Halldór Gunnar.
Á námskeiðinu voru einnig veittar ráðleggingar í tengslum við brunavarnir og slys. „Okkur finnst nauðsynlegt að skerpa á þessum málum. Það er hagur okkar allra að það gangi vel í húsinu, sama hvort það eru þjófnaðarmál eða annað.“
Inntur eftir því hvað fólki hafi verið ráðlagt á námskeiðinu varðandi þjófnaði segir Halldór að brýnt hafi verið fyrir því að fylgjast vel með þeim sem koma inn í verslanirnar. Best sé að lesa í hegðun fólks og horfa í augun á því.
„Besta þjófavörnin er vel vakandi starfsmaður.“
Einnig fjölgar öryggisvörðum í verslunum Kringlunnar fyrir jólin til að hafa augu með þeim sem þangað stíga inn. Flestir sem stela eru einir að verki en stundum kemur fólk í hópum og hjálpast að.
Halldór staðfestir að eitthvað hefur verið um að þjófar geri þjófavarnartæki óvirk. „Fólk finnur alltaf einhverja lausn. Það er ekki auðvelt að opna þetta en það hefur sýnt sig að það er hægt.“
Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir þjófnaði úr verslunum vera viðvarandi vandamál. Hann segir öll tilvik vera skráð hjá þeim, bæði þar sem þjófnaður er upplýstur og þar sem grunur leikur á um þjófnað. Engin merki hafa verið um aukningu á þjófnuðum í ár frá því í fyrra.
„Síðasta ár dró saman í þessu en auðvitað er þetta vandamál sem er til staðar,“ segir Sigurjón.