Sveitarfélög eru farin að líta til þess í auknum mæli, þegar rætt er um stefnumörkun í orkumálum og skipulagsmálum, hvaða tekjur þau geta haft af virkjunum. Þetta á sérstaklega við um vindorkugarða sem margir hafa áhuga á að koma upp víða um land.
Raforkumannvirki eru að stórum hluta undanþegin fasteignaskatti til sveitarfélaga. Við byggingu stórra vatnsaflsvirkjana eru það aðallega stöðvarhúsin sem greiddur er fasteignaskattur af. Þetta endurspeglast í mati á vindrafstöðvum.
Þannig eru vindmyllurnar sem Landsvirkjun reisti við Búrfell aðeins metnar á broti af raunverulegum stofnkostnaði. Skeiða- og Gnúpverjahreppur fær um hálfa milljón á ári í fasteignagjöld en telur að sú upphæð ætti að vera tífalt hærri. Sveitarfélagið hefur óskað eftir endurmati á vindmyllunum en niðurstaða liggur ekki fyrir.
Nokkrir aðilar hafa sýnt áhuga á að koma upp vindorkugörðum á Suðurlandi eða eru komnir af stað með undirbúning. Meðal þeirra er Arctic Hydro og eigendur tveggja jarða í Austur-Landeyjum. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur viljað fá fastara land undir fætur áður en hún færi að hleypa undirbúningi af stað. Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri nefnir að lagaumhverfið sé til skoðunar á landsvísu. Þá vilji sveitarstjórn fá að hreint hvaða tekjur hún muni fá af mannvirkjunum. Segir Ísólfur Gylfi að fyrirtækið hafi opnað á það að hugsanlega gæti sveitarfélagið fengið hlutdeild í framleiðslutekjum vindorkugarðsins.
Fjórir aðilar hafa sett sig í samband við Rangárþing ytra til að athuga möguleika á uppsetningu vindorkugarða í sveitarfélaginu. Eitt fyrirtækið, Biokraft ehf. sem rekur tvær litlar vindmyllur í Þykkvabæ, vinnur að umhverfismati og skipulagi fyrir 13 stærri vindmyllur til viðbótar, að því er fram kemur í fréttaskýringu um vindorkuna í Morgunblaðinu í dag.