Þingmennirnir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, og Oddný Harðardóttir, frá Samfylkingunni, kvörtuðu undir fundarstjórn Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við upphaf þingfundar á Alþingi í dag. Tilefnið var framlagning frumvarps til fjáraukalaga sem hefði verið lagt fram seint í gærkvöldi.
„Mér þykir algjörlega óásættanlegt að ætlast til þess af þingmönnum sem eru á fundum daginn út og daginn inn, einkum í fjárlaganefnd, hafa fengið til sín líka lokafjárlög og eru að reyna að sauma saman fjárlög, að þeir eigi svo að fara að ræða fjáraukalög sem ég leyfi mér að segja að enginn hefur lesið á þann hátt að hann geti tjáð sig sérstaklega um þau,“ sagði Bjarkey.
Þá sagði hún þingmenn ekki sitja við sama borð þegar kæmi að upplýsingum. „Hér er tekið viðtal við mann úr fjárlaganefnd í gær þar sem farið er með tilteknar tölur sem við höfum ekki hugmynd um, alla vega ekki ég og ég veit að fleiri hafa ekki haft þær tölur til staðar til þess að geta tekið þátt í þeirri umræðu. Það er hringt og beðið um viðtal við fjárlaganefndarmenn en þeir geta ekki veitt neinar upplýsingar vegna þess að þeir hafa engar tölur í höndunum þegar beðið er um viðtal um miðjan dag í gær. Það er óásættanlegt.“
Oddný tók í sama streng. Þingmenn annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins væru í verri stöðu að þessu leyti. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vera sá þingmaður sem tjáð hefði sig um frumvarpið í gær. ástæða þess væri sú að það hefði fyrst verið kynnt í þeim flokkum sem væru í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna í samræmi við venju og hann hefði því getað tjá sig á grundvelli þess sem þar hefði komið fram.
Steingrímur tók undir það að ekki væri ákjósanlegt að taka stór mál á dagskrá jafn hratt og gert hefði verið í þessu tilfelli. „Því miður dróst það í gær að frumvarpið yrði tilbúið til framlagningar. Vonir stóðu til að hægt yrði að útbýta því um miðjan dag eða síðdegis en það var ekki fyrr en langt var liðið á kvöld sem málið var endanlega tilbúið til útbýtingar.“ Vísaði hann til þeirra aðstæðna sem væru fyrir hendi. Skammur tími væri til jóla og áramóta.