Leki spilliefna og upplýsingaskortur

Kís­il­járnsver United Silicon í Helgu­vík. Umhverfisstofnun fylgist vel með starfseminni …
Kís­il­járnsver United Silicon í Helgu­vík. Umhverfisstofnun fylgist vel með starfseminni þessar vikurnar.

Leki spilliefna á lóð, vandræði með reykhreinsivirkjun og ófullnægjandi skráningar og upplýsingaskortur er meðal helstu athugasemda sem Umhverfisstofnun hefur gert við starfsemi kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.  

Á fundi með íbúum Reykjanesbæjar í gær um málefni kísilverksmiðjunnar kom fram að Umhverfisstofnun hefði skráð 11 frávik við starfsemina í fjórum eftirlitsferðum sem farnar hafa verið í verksmiðjuna frá því um miðjan nóvember.

Frétt mbl.is: Fundargestir á móti kísilverinu

Rafskautamassi lak úti á lóð

Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri í eftirlitsteymi Umhverfisstofnunnar, segir sum frávikanna vera tvítalin. „Mest snýr þetta að reykhreinsivirkjunum, afsogi og ófullnægjandi skráningum í kringum það,“ segir hún. Þá sé símælir, sem mælir virkni hreinsivirkisins, ekki enn komin upp.

Aukinheldur hafa verið gerðar athugasemdir við frágang á lóð, en í einni eftirlitsferð sáu fulltrúar Umhverfisstofnunar rafskautamassa, sem telst hættulegt efni, leka niður úti á lóð. Sigríður segir starfsmenn United Silicon hafa brugðist fljótt við þeirri ábendingu.

Þá hafi verið gerðar athugasemdir við skerta upplýsingagjöf, t.a.m. þegar hreinsivirki detti út, og innra eftirlit fyrirtækisins.

Byrjunarbragur á starfseminni

Sigríður segir að til að byrja með hafi til að mynda ekki legið fyrir hverjir ættu að veita Umhverfisstofnun upplýsingar og játar að byrjunarbragur sé á starfseminni. „Þess vegna er mikilvægt að fylgja því fast eftir að þeir komi þeim atriðum í lag,“ segir hún. „Ef þú ætlar að reka fyrirtæki af þessu kaliberi með mengandi starfsemi sem er að losa mengandi efni þá þarftu að standa þig betur í þessum málum.“

Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri í eftirlitsteymi Umhverfisstofnunnar, segir stofnunina fara í …
Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri í eftirlitsteymi Umhverfisstofnunnar, segir stofnunina fara í fyrirvaralausar eftirlitsferðir í kísilverksmiðjuna.

Umhverfisstofnun hefur reglulegt eftirlit með starfsemi United Silicon þessar vikurnar og fylgist t.a.m. vel með því að áætlun fyrirtækisins varðandi ýmis atriðið gangi eftir, enda hafi það verið ein af forsendum þess að stofnunin aflétti á mánudag banni við notkun ofns kísilverksmiðjunnar. „Annars erum við að fara í þessar eftirlitsferðir fyrirvaralaust,“ segir Sigríður og bætir við að stofnuninni finnist líka eðlilegt að líta við þegar margar lyktarkvartanir berast.

„Við erum að reyna að vinna þetta eins vel og faglega og við getum til að þeir finni að það er verið að fylgjast með þeim. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir svona fyrirtæki.“

Umhverfisstofnun veitir United Silicon starfsleyfi og leikur blaðamanni forvitni á að vita hvort fyrirtækið geti misst leyfið. Sigríður segir ekki gripið til svo íþyngjandi úrræða áður en annað sé fullreynt. „Við getum takmarkað starfsemi, lagt á dagsektir og ef að alvarleiki brotanna er þannig þá getum við beitt skyndilokunum.“

Eftirlitið er að virka

Spurð hvort þau fyrirtæki sem enn eiga eftir að hefja starfsemi í Helguvík megi búast við auknu eftirliti af hálfu Umhverfisstofunnar í ljósi byrjunarörðugleika United Silicon.

„Þetta er alltaf lærdómsferill og við erum alltaf að reyna að bæta okkar eftirlit og eftirfylgni og þetta mál er alveg að kenna okkur að svona föst eftirfylgni og reglulegt eftirlit er að skila árangri og við höfum fundið það í öðrum málum líka,“ segir Sigríður.

„Ég held að við munum taka á þessum málum með faglegum hætti líka og af þeim krafti sem við höfum og munum byrja að fara í eftirlitsferðir um leið og við teljum ástæðu til. Við byrjuðum að fara til United Silicon árið 2015 þegar þeir voru enn í byggingafasa og það var bara til að fara yfir ákvæði starfsleyfis sem urðu að vera komin áður en þeir gætu hafið starfsemi. Sami háttur verður hafður á þegar eitthvað fer að gerast hjá Thorsil og sömuleiðis hjá PCC fyrir norðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert