„Í augnablikinu eru stjórnarmyndunarviðræðurnar í pattstöðu. Þar að auki er álag í þinginu við afgreiðslu mála þar, svo fólk hefur ekki mikinn tíma til að tala saman,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
„Mér finnst ósennilegt að nokkuð gerist fyrr en í fyrsta lagi um helgina. Það eru nokkrir tæknilegir möguleikar í stöðunni. Enn sem komið er tel ég að Viðreisn, Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur séu ekki tilbúin að setjast niður aftur. Ég ætla ekki að útloka neitt stjórnarmynstur, nema að við göngum ekki sem þriðji flokkur inn í núverandi stjórnarsamstarf.“
Hægt miðar í viðræðunum um myndun nýrrar ríkssstjórnar, skv. samtölum Morgunblaðsins í gærkvöldi við talsmenn flokkanna. Birgitta Jónsdóttir, forystukona Pírata, skilaði umboði forseta Íslands til stjórnarmyndunar á mánudag. Síðan þá hefur fólk átt í óformlegum viðræðum, en þær hafa þó ekki leitt af sér neina hreyfingu á málum. Segja viðmælendur Morgunblaðsins sem svo að eftir hverja viðræðulotu þurfi fólk andrúm bæði til að meta stöðuna og safna kröftum fyrir næstu törn. „Fólk talar saman á kaffistofunni á Alþingi, en þar erum við fyrst og fremst að vinna í þingmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
„Ég er ekkert endilega bjartsýnn á að stjórnarmyndun náist fyrir jól,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokks.