„Það er ekki hægt að kenna eingöngu nagladekkjum um svifryksmengun í Reykjavík. Meginvandinn er að göturnar eru ekki þrifnar og við notum vitlaust malbik.“
Þetta segir Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, í tilefni fréttar í Morgunblaðinu í gær af mikilli svifryksmengun í Reykjavík sl. laugardag, sem var sextán sinnum meiri en heilsuverndarmörk segja til um. Þar komu m.a. fram áhyggjur heilbrigðisfulltrúa af aukinni notkun nagladekkja.
„Ég er satt best að segja orðinn leiður á þessari umræðu ár eftir ár í sambandi við svifrykið. Alltaf koma sömu fréttirnar um að nagladekkin og tíðarfarið séu sökudólgurinn og svifrykið sé öllu öðru að kenna en því sem raunverulega er um að kenna. Auðvitað eiga dekkin sinn þátt en ég hef séð margar rannsóknir sem sýna að hlutur nagladekkjanna sé ekki nema á bilinu 10 til 15 prósent,“ segir Ólafur.
Hann segir vandann mega rekja til þess að malbikað sé með íslensku grjóti þegar ætti að nota kvarts, vitlaust bik sé notað og slitlagið sé of þunnt.
„Hingað til lands komu þýskir sérfræðingar síðastliðinn vetur sem sáu líka að malbikið er of kalt þegar við leggjum það. Við notum ekki einangraða malbikunarvagna en þegar bikið kemur út úr vélunum má það ekki vera kaldara en 120 gráður, áður en valtarinn fer yfir það. Ef það er kaldara þá er límingin farin úr því. Þjóðverjarnir sáu það á yfirborði gatnanna hvað hafði verið lagt of kalt og hvað ekki,“ segir Ólafur í Morgunblaðinu í dag og nefnir Álftanesveg og hluta Miklubrautar sem dæmi um þetta.