„Stendur agndofa frammi fyrir þessu“

Birgðaaukning er sögð fyrirsjáanleg.
Birgðaaukning er sögð fyrirsjáanleg. mbl.is/Helgi Bjarnason

Hundrað milljónum króna verður varið í sérstakt markaðsátak á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða, vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar kindakjöts hér á landi. Þetta kemur fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga, sem lagt verður fyrir Alþingi í dag.

Segir þar að mikill taprekstur sé á sölu sauðfjárafurða, og þrátt fyrir lækkun á verði sláturleyfishafa til bænda fyrir sauðfjárafurðir sé frekari aðgerða þörf.

„Markaðsráð kindakjöts, sem er samstarfsvettvangur bænda og sláturleyfishafa, hefur unnið markvisst að því að finna nýja markaði erlendis, en ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinnipart vetrar og/eða næsta haust,“ segir í frumvarpinu.

Þessi afsetning sé þá hugsuð sem skammtímalausn, en jafnframt sé verið að byggja á langtíma áætlunum í sölu á kindakjöti, bæði innanlands og erlendis.

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Golli

„Hvað eru menn að hugsa?“

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir í samtali við mbl.is að sér sé orðavant.

„Maður náttúrulega stendur agndofa frammi fyrir því að stjórnvöld séu að verja sérstökum fjármunum í að halda verðlagi uppi á Íslandi. Maður á eiginlega engin orð.“

Þá sé það ljóst að kjötið sé selt ódýrara erlendis.

„Við vitum það. Þeir reyna ekki að selja það á sama verði og það er selt hér. Nú vill maður bara setja stólinn fyrir dyrnar. Hvert eru menn að fara? Hvað eru menn að hugsa? Hvernig voga menn sér að koma svona fram við neytendur?“

Ólafur tekur fram að þessi gagnrýni beinist ekki að bændum.

„Frekar gegn þessum ráðandi hugsunarhætti hérna, sem mér hefur fundist í raun og veru jafn fjandsamlegur bændastéttinni eins og neytendum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert