Hækka þarf framlög til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um 2,6 milljarða í ár vegna lífeyrishækkana bótaþega, skv. fjáraukalagafrumvarpi ársins.
Á næsta ári mun ríkið borga 5 milljarða inn á lífeyrisskuldbindingu B-deildarinnar en fram kom í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í vikunni að í kringum árið 2026 tæmdist eignastaða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í B-deildinni á móti skuldbindingum.
„Og þá sitja skuldbindingar einar eftir og ríkissjóður mun að óbreyttu frá þeim tíma, verði ekkert gert í millitíðinni, sem við reyndar ætlum að gera eins og fjárlagafrumvarpið ber með sér fyrir næsta ár, [...] þurfa að greiða út á bilinu 25 til 30 milljarða ár hvert til að mæta þeim þegar útgefnu skuldbindingum,“ sagði hann.