„Þetta vita allir sem vilja vita en samt grípa stjórnvöld ekki til enn harðari úrræða en gert hefur verið til að stöðva straum þessa fólks til landsins,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á vefsíðu sinni þar sem hann ræðir mikla fjölgun hælisleitenda hér á landi og þá einkum frá Makedóníu og Albaníu.
Fyrstu tíu mánuði þessa árs sóttu samtals 761 um hæli hér á landi samkvæmt tölum á vefsíðu Útlendingastofnunar. Þar af 216 frá Makedóníu og 195 frá Albaníu. Til viðbótar sóttu 255 um hæli í nóvember og þar af 180 frá Makedóníu. Heildarfjöldi hælisumsókna á þessu ári er því kominn yfir eitt þúsund en heildarfjöldinn á síðasta ári var til samanburðar 354. Viðbúið er því að fjöldi hælisumsókna á þessu ári verði um þrefaldur á við síðasta ár.
„Enginn sem þekkir til mála í Makedóníu eða Albaníu skilur hvað knýr fólk þaðan til að fljúga alla leið til Íslands. Að baki hljóti að vera annarlegur, hulinn tilgangur,“ segir Björn. Þar búi að baki að hans mati að dveljast á Íslandi í nokkra mánuði á kostnað íslenskra skattgreiðenda, að stunda svarta atvinnu á meðan á dvölinni stendur og nýta sér íslenska heilbrigðisþjónustu.
„Ástæðan er ekki síst sú að frá Alþingi, fjárveitingarvaldinu, kemur enginn þrýstingur í þá veru að stöðva þessa ásókn í skattfé almennings. Aukafjárveitingar eru samþykktar án umræðu vegna móttöku fólksins en menn velta fyrir sér hverri krónu þegar rætt er um fé til að gæta landamæranna á viðunandi hátt,“ segir Björn ennfremur. og bætir síðan við:
„Fjölgun þessara hælisleitenda sem eiga engan lögmætan rétt til að fá vernd hér má rekja til þess að um þetta leyti árið 2015 gerðist sá einstæði atburður að alþingismenn gripu fram fyrir hendur útlendingastofnunar, hnekktu lögmætri afgreiðslu hennar og samþykktu með lögum ríkisborgararétt fyrir albanska fjölskyldu sem stofnunin hafði neitað um leyfi til að dveljast í landinu með vísan til laga og reglna um hælisleitendur.“
Björn segir að það þurfi í sjálfu sér ekki að koma á óvart að nýtt met í umsóknum um hæli sé slegið í nóvember „ef til þess er litið að þeir sem hvetja fólkið til Íslandsfarar og hagnast ef til vill á henni segi því að rétt fyrir jól ár hvert samþykki Alþingi Íslendinga lög um ríkisborgararétt og þess vegna sé rétti tíminn til að fara til landsins nú í von um fá nafn sitt og fjölskyldu sinnar inn í lagatextann.“