„Það hefur verið gæfa flokksins að honum hefur auðnast að laga sig að breyttum tímum og gert það vel, án þess nokkurn tímann að víkja frá grunngildunum. Og enn stöndum við frammi fyrir áskorunum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, í grein sem birtist á heimasíðu Framsóknarflokksins í dag, þegar flokkurinn fagnar 100 ára afmæli.
Framkvæmdastjórn flokksins bauð til afmælishátíðar í Þjóðleikhúsinu í kvöld, en á sama tíma efndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, til veislu á Akureyri.
Í grein sinni segir Sigurður að flokkurinn eigi sér mikla sögu og að hann endurnýjaði sig stöðugt. Hann hefði átt erindi við þjóðina fyrir hundrað árum og ætti erindi við hana í dag. Þá leit hann yfir sviðið í dag.
„Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynduð verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Milli jaðranna vinstri og hægri í stjórnmálum er miðjan, þungamiðjan. Þar erum við og höfum verið í heila öld.“