Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sagðist ætla að „leita samráðs við Ríkisútvarpið“ um hvernig unnið verði úr klofningi innan flokksins í viðtali við RÚV í kvöld í tilefni aldarafmælis flokksins. Gaf hann í skyn að RÚV bæri meiri ábyrgð á stöðunni í flokknum en hann.
Ummælin lét Sigmundur Davíð falla í viðtali við Sunnu Valgerðardóttur, fréttakonu RÚV, í kvöldfréttum en þau voru stödd á Akureyri þar sem fyrrverandi formaðurinn stendur fyrir gleðskap á sama tíma og aldarafmæli Framsóknarflokksins er fagnað í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík.
„Það segja sumir, meðal annars formaðurinn og stjórnmálafræðingar, að flokkurinn sé klofinn og það sé verið að halda upp á þetta afmæli í skugga mikilla flokksátaka. Tekur þú einhverja ábyrgð á því?“ byrjaði Sunna á að spyrja Sigmund Davíð.
„Ekki eins mikla og Ríkisútvarpið,“ sagði Sigmundur Davíð og hló við.
Viðurkenndi hann þó að blendnar tilfinningar væru á afmælinu því hann hefði séð fyrir sér að halda upp á aldarafmælið í aðdraganda kosninga eftir það sem hann sagði eitt árangursríkasta kjörtímabil í sögu flokksins. „Svo hefur auðvitað gengið á ýmsu, því er ekki að neita, en það á ekki að koma í veg fyrir að menn fagni þessu miklu tímamótum og þessari gríðarlega miklu og góðu sögu þessa flokks,“ svaraði Sigmundur Davíð.
Fyrrverandi formaður hélt áfram að gagnrýna RÚV þegar hann var spurður að því hvaða skref hann ætlaði að taka til þess að laga klofninginn í flokknum.
„Ég mun bara reyna að leita samráðs við Ríkisútvarpið um hvernig við vinnum úr þessu saman,“ sagði Sigmundur Davíð.
„En innan flokksins, ætlarðu eitthvað að vinna innan flokksins, ekki bara við Ríkisútvarpið?“ var hann spurður.
„Ja, Ríkisútvarpið náttúrulega kemur það mikið að málum í flokknum að ég held að það sé eðlilegt að við vinnum þetta í sameiningu,“ sagði Sigmundur Davíð.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist svo sem ekki vita hvort að rétt væri hjá forvera sínum í embætti að RÚV bæri mikla ábyrgð á stöðu flokksins.
„Ætli allir beri ekki einhverja ábyrgð, eða enginn,“ sagði Sigurður Ingi.