Af fjárlagafrumvarpinu fyrir 2017 leiðir aðhaldskrafa á Landspítala upp á 5,3 milljarða króna. Ljóst er að þeirri kröfu verður ekki mætt nema með uppsögnum, sem mun leiða til þess að einhver starfsemi verður skert og önnur lögð af. Þetta kemur fram í vikulegum pistli forstjóra Landspítala.
Í pistlinum ávarpar Páll Matthíasson starfsfólk spítalans og segir framkvæmdastjórn vinna að því að laga rekstur spítalans að fjárlagafrumvarpinu, en jafnvel þótt fjárlög hafi ekki verið samþykkt geri velferðarráðuneytið þá kröfu til stofnana sinna að áætlun fyrir 2017 verði skilað í byrjun næstu viku.
Páll segir ljóst að aðhaldskröfunni verði ekki mætt nema að verulega hrikti í stoðum spítalans.
„Þegar ríflega 70% rekstrarkostnaðar liggja í mannahaldi er sömuleiðis ljóst að ekki verður unnt að mæta kröfunni öðruvísi en með uppsögnum. Af því leiðir að einhver starfsemi mun verða skert og önnur lögð af. Aðrar leiðir eru ekki færar eftir vegferð síðasta áratugar. Verkefnið nálgast stjórnendur Landspítala út frá eftirfarandi forgangsröð.
1. Lífsbjargandi þjónusta; meðhöndlun alvarlegra bráðatilfella og lífshættulegra sjúkdóma.
2. Meðferð vegna alvarlegra langvinnra sjúkdóma.
3. Meðferð minna alvarlegra slysa og sjúkdóma.
4. Endurhæfing, forvarnir.
5. Þjónusta við þá sem lokið hafa meðferð á Landspítala.“
Páll segir McKinsey-skýrsluna hafa sýnt fram á að Landspítalinn væri fjársveltur en vel rekinn. Hann næði að „sinna sínu lykilhlutverki þrátt fyrir andvara- og skilningsleysi á starfseminni.“
Hann minnir á loforð allra flokka fyrir kosningar um endurreisn heilbrigðiskerfisins og segir öruggt að val margra kjósenda í hópi starfsmanna og velunnara Landspítala hafi mótast af þeim velvilja sem þar birtist.
„Í þessu ljósi er óhætt að segja, þegar horft er til fjárlagafrumvarpsins, að fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús. Frumvarp með aðhaldskröfum af þessu tagi er ekki boðlegt sjúklingum og aðstandendum þeirra sem munu áfram þurfa að þiggja þjónustu sem of oft er undir okkar getu og þeirra væntingum. Frumvarpið er ekki boðlegt starfsfólki Landspítala sem dregið hefur þennan þunga vagn frá aldamótum og hafði fulla ástæðu til að ætla að nú yrði létt á byrðunum. Það er ekki boðlegt kjósendum þessa lands sem gerðu stjórnmálamönnum ljósa grein fyrir því hvar hjarta landsmanna slær: Með heilbrigðiskerfinu. En ekki hvað síst er frumvarpið óboðlegt sæmilega heilbrigðri skynsemi enda með öllu óskiljanlegt að nýta ekki þann frumkraft sem býr í öflugri starfsemi Landspítala þegar hann fær rými til að sinna sínum verkefnum,“ segir forstjórinn.
Páll segist ekki munu missa svefn yfir því þótt einhverjum kunni að svíða athugasemdir hans. Hann segir enn tækifæri til að gera breytingar og segir valkostina skýra:
„1. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt verða afleiðingarnar mjög alvarlegar fyrir stóran hóp sjúklinga og aðstandendur þeirra. Ekki verður komist hjá uppsögnum, lokunum deilda og annarri skerðingu á þjónustu sjúkrahússins. Það er óþolandi.
2. Verði komið til móts við lágmarksfjárþörf Landspítala og niðurskurði um 5,3 milljarða forðað verður ástand mála á Landspítala óbreytt. Það er óásættanlegt.
3. Verði gerð veruleg bragarbót á frumvarpinu og fjármagni veitt til Landspítala til uppbyggingar – eins og lofað var – getum við sett kraft í langþráða endurreisn.“
Hér má lesa pistil Páls í heild.