Sendibréf frá Jörgen Jörgensen eða Jörundi hundadagakonungi til Fritz, bróður hans, er til sölu á uppboðsvefnum eBay. Lágmarksboð 799,95 dollarar, um 91 þúsund krónur, en tilboðsfrestur rennur út á þriðjudag.
Bréfið var sent frá London til Kaupmannahafnar 7. mars 1824. Það er ófrímerkt enda var fyrsta frímerkið gefið út í Bretlandi 1. maí 1840.
Jörundur hundadagakonungur var við völd á Íslandi um nokkurra vikna skeið sumarið 1809. Hann var danskur ævintýramaður, fæddur 1780. Seljandi bréfsins á eBay er skráður á Seltjarnarnesi. Á vefnum kemur fram að hann sé reyndur og háttskrifaður hjá eBay og hafi selt þar 14.818 muni síðan árið 2000.