Í nýframlögðu frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að 100 milljónum króna verði varið til að markaðssetja lambakjöt erlendis. Fyrirkomulag þessa er þannig að Markaðsráði kindakjöts verður falin umsýsla og ráðstöfun fjárins til sláturleyfishafa.
„Það er með þessu verið að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Markaðsráðs kindakjöts.
„Sláturleyfishafar munu nýta féð til að koma kjöti á þá markaði sem þeir hafa verið að vinna á. Það hafa verið þrengingar á þessum mörkuðum og þetta fé verður nýtt til markaðs- og kynningarmála þar.“ Hann segir að helst sé um að ræða Spán og Rússland en sumir sláturleyfishafar hafi leyfi til að selja kjöt til Rússlands þrátt fyrir viðskiptabann og verði því haldið áfram. „Svo hafa menn verið að þreifa fyrir sér með markað á Norðurlöndum.“ Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann markaðsráðið munu hafa umsjón með útdeilingu þessa fjár.