Tillaga frá Arkitektum Studio Granda fór með sigur af hólmi í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreit. Dómnefndin var einhuga um valið á vinningstillögunni sem hún sagði fela í sér sannfærandi og listræna heildarlausn á húsnæðis- og skipulagsmálum Alþingis sem þurfi að hrinda í framkvæmd.
Formaður dómnefndar í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreit, Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis, kynnti niðurstöður dómnefndarinnar nú síðdegis.
Í fyrsta sæti varð tillagan frá Arkitektum Studio Granda. Í öðru sæti var tillaga frá T.ark arkitektum og í þriðja sæti tillaga frá PKdM arkitektum.
Í skýrslu dómnefndar segir að hún hafi verið einhuga um val á vinningstillögunni, þar sem hún feli í sér sannfærandi og listræna heildarlausn á þeim húsnæðis- og skipulagsmálum Alþingis sem aðkallandi sé að hrinda í framkvæmd.
„Jafnframt sýnir hún fram á dýrmæta möguleika til framtíðarþróunar á húsakosti þingsins. Höfundar leitast við að tengja nýbygginguna við sögu Alþingis og þróun byggðar í Kvosinni allt frá landnámsöld.“
Minjar um upphaf byggðar og minni úr seinni tíma byggingarsögu Reykjavíkur séu þá dregin fram og eru sögð mynda samþætta heild með nýrri byggingarlist, sem beri samtíð sinni vitni af hógværð og tillitssemi við nánasta umhverfi.
„Höfundar leggja áherslu á að styrkja og fegra þau borgarrými sem fyrir eru við jaðra reitsins fremur en að skapa ný inni á miðju hans. Tengsl samtíðar við atburði fyrri alda eru viðfangsefni myndlistarverks við aðalinngang og þau endurspeglast jafnframt í hugmynd um lagskipta steinklæðingu á ytra borði aðalbyggingar.“
Í heild sé tillagan verðugur merkisberi framsækinnar og vandaðrar byggingarlistar fyrir Alþingi á 21. öldinni, á líkan hátt og Alþingishúsið við Austurvöll hafi verið tákn nýrra tíma í listhugsun og verkmenningu á 19. öld.
Sýning á öllum tillögum sem nefndinni bárust verður opin á 1. hæð Landssímahúss frá kl. 14 til 17 á morgun og á virkum dögum frá kl. 16 til 18, fram að áramótum.