Minjasafnið á Mánárbakka á Tjörnesi hefur vakið athygli sem og margvísleg söfnun og útskurður Aðalgeirs Egilssonar bónda, en því hefur minna verið haldið á lofti að hann hefur jafnframt verið veðurathugunarmaður á staðnum í rúm 60 ár.
Þegar Aðalgeir var 19 ára hafði Veðurstofan samband við föður hans og óskaði eftir því að hann tæki að sér veðurathugun á Mánárbakka. Áður höfðu Fiskifélagið og sjómenn frá Húsavík beðið um að fá veðurstöð á nesinu. „Svo fór að ég tók þetta að mér og ég hef sinnt veðurathuguninni frá upphafi,“ segir Aðalgeir. „Ég byrjaði 26. júní 1956 og þegar við byggðum nýbýlið 1961 fylgdi stöðin með mér þangað.“
Til að byrja með þurfti Aðalgeir að taka veðrið þrisvar til fjórum sinnum á sólarhring og sex sinnum, þegar mest var. „Það var svo þrisvar sinnum á sólarhring síðasta árið, byrjaði laust fyrir klukkan sex á morgnana til klukkan sex á daginn, en lengi vel var þetta til klukkan tólf á kvöldin. Þetta var orðið viðráðanlegt þegar yfir lauk.“
Augljóst er að starfinu fylgir mikil viðvera. „Þetta er óskapleg binding og það gerir sér enginn grein fyrir því hvað ég var alltaf fastur við þetta allan ársins hring,“ segir Aðalgeir, sem hætti formlega síðastliðinn þriðjudag. Samt segist hann ekki hafa hugsað um að hætta fyrr en nú. Hann segist aldrei hafa lent í vandræðum og ekki misst úr athugun. „Maður staulaðist þetta út hvernig sem viðraði.“
Vinnuumhverfið hefur nær ekkert breyst í 60 ár. Hitamælarnir hafa alla tíð verið í eins kössum og lesturinn farið fram með sama hætti. „En það var mikil breyting að fá tölvuna og geta sent upplýsingarnar rafrænt frekar en að liggja yfir símanum og koma efninu frá sér símleiðis. Það gat verið tafsamt.“
Veðurathugunin hefur verið ríkur partur í lífi Aðalgeirs. Hann segir að oft hafi verið gaman að fylgjast með veðrinu svart á hvítu. „Ég hugsaði um veðrið allan sólarhringinn enda þurfti ég að vita hvernig veðrið var á milli athugana. Oft var hringt og spurt um veðrið, ekki síst á árum áður.“
Veðurathugunin er nú sjálfvirk. Aðalgeir segir það mikil viðbrigði að vera hættur, „en á maður ekki bara að gleðjast yfir því?“ spyr hann. Hann segist ekki kvíða verkefnaskorti. Minjasafnið taki sinn tíma sem og söfnunin, ekki síst kortasöfnunin. „Svo er ég í útskurði og öllum fjandanum,“ segir Aðalgeir, sem hefur auk þess sinnt bústörfum alla tíð.