Veðurathugunarmaður í 60 ár

Árni Snorrason veðurstofustjóri afhendir Aðalgeir Egilssyni gjöf í tilefni tímamótanna …
Árni Snorrason veðurstofustjóri afhendir Aðalgeir Egilssyni gjöf í tilefni tímamótanna í gær. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Minja­safnið á Mánár­bakka á Tjör­nesi hef­ur vakið at­hygli sem og marg­vís­leg söfn­un og út­skurður Aðal­geirs Eg­ils­son­ar bónda, en því hef­ur minna verið haldið á lofti að hann hef­ur jafn­framt verið veður­at­hug­un­ar­maður á staðnum í rúm 60 ár.

Þegar Aðal­geir var 19 ára hafði Veður­stof­an sam­band við föður hans og óskaði eft­ir því að hann tæki að sér veður­at­hug­un á Mánár­bakka. Áður höfðu Fiski­fé­lagið og sjó­menn frá Húsa­vík beðið um að fá veður­stöð á nes­inu. „Svo fór að ég tók þetta að mér og ég hef sinnt veður­at­hug­un­inni frá upp­hafi,“ seg­ir Aðal­geir. „Ég byrjaði 26. júní 1956 og þegar við byggðum ný­býlið 1961 fylgdi stöðin með mér þangað.“

Mik­il bind­ing

Til að byrja með þurfti Aðal­geir að taka veðrið þris­var til fjór­um sinn­um á sól­ar­hring og sex sinn­um, þegar mest var. „Það var svo þris­var sinn­um á sól­ar­hring síðasta árið, byrjaði laust fyr­ir klukk­an sex á morgn­ana til klukk­an sex á dag­inn, en lengi vel var þetta til klukk­an tólf á kvöld­in. Þetta var orðið viðráðan­legt þegar yfir lauk.“

Aug­ljóst er að starf­inu fylg­ir mik­il viðvera. „Þetta er óskap­leg bind­ing og það ger­ir sér eng­inn grein fyr­ir því hvað ég var alltaf fast­ur við þetta all­an árs­ins hring,“ seg­ir Aðal­geir, sem hætti form­lega síðastliðinn þriðju­dag. Samt seg­ist hann ekki hafa hugsað um að hætta fyrr en nú. Hann seg­ist aldrei hafa lent í vand­ræðum og ekki misst úr at­hug­un. „Maður staulaðist þetta út hvernig sem viðraði.“

Vinnu­um­hverfið hef­ur nær ekk­ert breyst í 60 ár. Hita­mæl­arn­ir hafa alla tíð verið í eins köss­um og lest­ur­inn farið fram með sama hætti. „En það var mik­il breyt­ing að fá tölv­una og geta sent upp­lýs­ing­arn­ar ra­f­rænt frek­ar en að liggja yfir sím­an­um og koma efn­inu frá sér sím­leiðis. Það gat verið taf­samt.“

Veður­at­hug­un­in hef­ur verið rík­ur part­ur í lífi Aðal­geirs. Hann seg­ir að oft hafi verið gam­an að fylgj­ast með veðrinu svart á hvítu. „Ég hugsaði um veðrið all­an sól­ar­hring­inn enda þurfti ég að vita hvernig veðrið var á milli at­hug­ana. Oft var hringt og spurt um veðrið, ekki síst á árum áður.“

Veður­at­hug­un­in er nú sjálf­virk. Aðal­geir seg­ir það mik­il viðbrigði að vera hætt­ur, „en á maður ekki bara að gleðjast yfir því?“ spyr hann. Hann seg­ist ekki kvíða verk­efna­skorti. Minja­safnið taki sinn tíma sem og söfn­un­in, ekki síst korta­söfn­un­in. „Svo er ég í út­skurði og öll­um fjand­an­um,“ seg­ir Aðal­geir, sem hef­ur auk þess sinnt bú­störf­um alla tíð.

Aðalgeir Egilsson hjá Mánadís sem hann skar út í rekaviðartré.
Aðal­geir Eg­ils­son hjá Mánadís sem hann skar út í rekaviðartré. mbl.is/​Atli Vig­fús­son
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert