„Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, var afskaplega óhress með það þegar Sunna Valgerðardóttir, fréttakona RÚV, spurði hann út í fjarvistir hans frá Alþingi.

Alþingi kom saman 6. desember og síðan þá hefur Sigmundur ekki mætt á þingið. Þegar hann var spurður um hvers vegna hann hefði ekki mætt í vinnuna var fyrrverandi forsætisráðherrann ekki ánægður:

„Sko, þessi viðtöl við þig, eiga þau öll að vera svona, á þessum nótum? Á 100 ára afmæli flokksins líka. Síðast baðstu mig um að veita þér viðtal á ákveðnum forsendum og það gekk ekki alveg eftir. Svo mætirðu hér í 100 ára afmæli og spyrð spurninga eins og þessara, á þetta bara að vera svona. Ekkert mætt í vinnuna? Hvers konar nálgun er þetta á viðtal?“ spurði Sigmundur og sakaði fréttamann um að biðja um viðtal á fölskum forsendum.

Frétt mbl.is: Sigmundur Davíð í „samráð við RÚV“

RÚV tekur það fram að fréttamaður hafi aldrei fullyrt að viðtalið myndi eingöngu snúast um 100 ára afmæli flokksins, sem haldið er upp á um helgina.

Sigmundur kvaðst hafa fylgst með þingfundum eins og aðrir þingmenn og þar með gangi mála á Alþingi. Fréttamaður segir þá að hann hafi ekki getað fylgst með eins og aðrir þingmenn því aðrir þingmenn hafa mætt í þingsal, en það hafi Sigmundur ekki gert.

Sigmundur var ekki ánægður með þessi ummæli: „Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu, og sérstaklega þér í minn garð. Ég hef fylgst með umræðum í þinginu og störfunum þar eins og aðrir þingmenn. Segjum þetta gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert