„Hættið að standa fyrir Austurlandi kæru veðurfræðingar.“ Svo hljómar nafn hóps á Facebook, þar sem skráðir eru nær hundrað manns þegar þetta er skrifað.
Deilir fólk þar myndum og frásögnum af því þegar veðurfræðingar Ríkissjónvarpsins standa fyrir austurhluta landsins á meðan þeir spá fyrir um veður næstu daga.
Ljóst er að mörgum er heitt í hamsi yfir því að fá ekki sömu þjónustu og höfuðborgarbúar og Vestfirðingar, svo dæmi séu nefnd, aðeins vegna þess að veðurfræðingurinn velur að standa hægra megin fyrir framan Íslandskortið.
Á vef Austurfréttar er Eiður Ragnarsson, einn meðlima hópsins, tekinn tali, en á Facebook-síðu sinni í gær birti hann færslu: „Gengur á með jakkafötum og hvítri skyrtu austanlands næstu daga“. Með fylgdi þá myndin hér að ofan.
„Þetta er kannski óþarfa tuð og vel er hægt að skoða veðrið annarsstaðar, en svona fyrst þessi dagskrárliður er í sjónvarpinu þá finnst mér það lágmarks tillitssemi að hægt sé að gjóa augunum á helstu atriði eins og hitatölur og vind í sínum fjórðungi,“ segir Eiður í samtali við Austurfrétt.