„Hér er ríkisvaldið að verja skattpeningum í niðurgreiðslu á sauðfjárafurðum erlendis beinlínis til að halda uppi verði á matvælum á íslenskum neytendamarkaði. Hér er ríkisvaldið að beita aðferðum, sem eru löngu fullreyndar og mistókust með öllu. Útflutningsstyrkir fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir virkuðu ekki á árum áður og munu ekki heldur gera það nú.“
Þetta segir í opnu bréfi Ólafs Arnarsonar, formanns Neytendasamtakanna, til þingmanna vegna frumvarps til fjáraukalaga þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að 100 milljónum króna verði varið til „að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar,“ líkt og segi í frumvarpinu.
Ólafur bendir enn fremur á að í athugasemdum við frumvarpið segi að aðgerða sé þörf vegna mikils tapreksturs á sölu sauðfjárafurða. Unnið hafi verið að því að finna nýja markaði erlendis en ljóst sé að afsetja þurfi um 800 til 1.000 tonn til þess að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinni part vetrar og/eða næsta haust.
Þannig séu umræddar 100 milljónir króna beinlínis hugsaðar sem beinar niðurgreiðslur vegna sölu á íslensku kindakjöti til neytenda í útlöndum til að sjá til þess að verð lækki ekki til íslenskra neytenda. „Ásetningurinn er því einbeittur. Verð á sauðfjárafurðum má ekki lækka til íslenskra neytenda.“ Markmiðið sé að nota skattfé til þess að halda uppi matarverði á Íslandi.
„Þessi aðför að íslenskum neytendum er ekki í þágu hagsmuna bænda. Hún er í þágu milliliða, bændum gagnslaus og á kostnað neytenda. Neytendasamtökin skora á alla þingmenn að taka sér stöðu með íslenskum neytendum og hafna ríkisaðstoð við milliliði í landbúnaði, sem hækkar matvöruverð til neytenda og höfuðstól húsnæðislána en skilar sér ekki til bænda.“