Breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe hefur keypt meirihlutann í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum, að eigin sögn með það að markmiði að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi.
Áður hefur Ratcliffe á þessu ári keypt þrjár jarðir í Vopnafirði og á þar með að hluta eða í heild ellefu jarðir í Vopnafirði, en eignarhlut í einhverjum þeirra á hann í gegnum Veiðiklúbbinn Streng ehf.
Kaup Ratcliffe áttu sér ekki langan aðdraganda í umfjöllun fjölmiðla, en annað gilti um sjálfa jörðina á árunum 2011 til 2014, eins og mörgum er eflaust kunnugt.
Allt hófst það þegar Huang Nubo, stjórnarformaður kínverska fjárfestingarfyrirtækisins Zhongkun Group, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti í ágúst árið 2011 og keypti jörðina, með því skilyrði að leyfi kínverskra og íslenskra yfirvalda fengist fyrir kaupunum. Hugðist hann meðal annars reisa hótel á jörðinni.
Fáir kunnu á Nubo deili, en í fróðlegri umfjöllun China Daily var hann sagður fjallgöngugarpur og frjótt ljóðskáld undir skáldanafni sínu, Luo Ying.
Sótti Nubo í kjölfarið um undanþágu frá innanríkisráðuneytinu, sem var nauðsynleg í hans tilviki þar sem hann var hvorki íslenskur ríkisborgari né búsettur innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Fljótlega fóru sumir stjórnmálamenn að gjalda varhug við kaupum Nubo á svo stórri jörð.
„Það er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að greiða fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi. Vilji menn reisa hótel og fara í ferðaþjónustu ber að fagna því. En er það sjálfsagt og eðlilegt að menn geti keypt stórar jarðir og jafnvel hundruð ferkílómetra lands? Það finnst mér ekki. Eitt sem horfa ber til er hvort íslenskir ríkisborgarar njóta slíks réttar í heimaríki viðkomandi,“ sagði Bjarni Benediktsson um kaupin í nóvember árið 2011.
Einhverjir bentu þá á að erfitt og kostnaðarsamt væri að búa til golfvöll á jörðinni, en það hugðist Nubo meðal annars gera.
Sagði Trausti Jónsson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið að oft væri kalt á Grímsstöðum og frostlyfting gæti orðið á fyrirhuguðum flötum vallarins.
Réttum þremur mánuðum eftir tilkynningu um kaupin, eða þann 25. nóvember 2011, var það úrskurður Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, að hann fengi ekki keypt jörðina.
Myndskeið mbl.is: Beiðni Nubo synjað
Í tilkynningu frá ráðuneytinu sagði að ekki yrði horft framhjá því hversu stórt landsvæði væri um að ræða, sem félagið hygðist kaupa, eða 30.639 hektarar, og að engin fordæmi væru fyrir því að jafnstórt landsvæði á Íslandi hefði verið fært undir erlend yfirráð.
Þá bæri einnig að hafa í huga að ákvæðið setti fyrir því ströng skilyrði að hlutafélög megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir íslenskum fasteignum, og ljóst væri að umrætt félag uppfyllti ekkert þeirra.
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, sagðist afar ósátt við ákvörðun Ögmundar í samtali samdægurs við vefritið Smuguna.
„Ég tel að ákvörðun af þessari stærðargráðu hefði átt að ræða við ríkisstjórnarborðið þótt hún liggi lögformlega hjá ráðherranum. Ríkisstjórnin vill auka erlenda fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu og við þurfum sárlega á erlendri fjárfestingu að halda,“ sagði Jóhanna. Bætti hún við að ljóst væri að ákvörðunin væri ekki til þess fallin að styrkja ríkisstjórnarsamstarfið.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu, tók þá í sama streng.
„Ákvörðun innanríkisráðherra í morgun vekur óhjákvæmilega spurningar um ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstri grænna,“ sagði hann og benti á að hann hefði sent Ögmundi minnisblað, þar sem ítarlega hefði verið rakið hversu mikilvæg erlend fjárfesting væri fyrir íslenskt efnahagslíf.
Nubo sjálfur tjáði sig um ákvörðunina þremur dögum síðar, í einkaviðtali í vefútgáfu China Daily.
Sagði hann höfnunina endurspegla óréttlæti og þröngsýni sem kínverskir einkafjárfestar stæðu frammi fyrir erlendis. Ísland, jafnt og kínverskir fjárfestar, myndi þá tapa á ákvörðun ráðherrans.
Því næst var til umræðu að leigja Nubo frekar jörðina. Var atvinnuþróunarfélögunum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu falið að kanna hvort sá möguleiki væri í stöðunni að sveitarfélög á norður- og austurlandi keyptu jörðina og leigðu hana til félags í hans eigu.
„Ég er bjartsýnn á að af þessu verði. Þetta snýst um að byggja hótel úti á landi og við vonum að af því verði,“ sagði Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings í samtali við mbl.is í maí árið 2012.
Miðað var við að leigusamningurinn væri til fjörutíu ára. Oddný Harðardóttir, þáverandi iðnaðarráðherra sagði að sér litist vel á það fyrirkomulag.
„Mér líst ágætlega á það að jörðin á Grímsstöðum á Fjöllum verði í opinberri eigu, þ.e. í eigu sveitarfélaganna en síðan leigi þau jörðina áfram. Mér líst ekkert illa á það,“ sagði Oddný.
Ekki virtist Huang Nubo sætta sig við fjörutíu árin. Í öðru viðtali í dagblaðinu China Daily sagðist hann vonast eftir því að leigusamningurinn um Grímsstaði á Fjöllum yrði til 99 ára.
„Samningarnir eru við það að klárast. Ég á von á því að niðurstaðan verði ekki fjarri því sem ég vonaðist eftir,“ sagði Nubo í viðtalinu, í maímánuði 2012. Þá reiknaði hann með að fjárfesta fyrir um 200 milljónir dollara á Íslandi, eða sem nam þá um 24 milljörðum króna.
„Líkurnar á að þessu verði hafnað eru ekki miklar því þetta mál kemur ekkert inn á verksvið innanríkisráðuneytisins.“
Íslendingar voru ekki jafn upplitsdjarfir og kínverski fjárfestirinn. Ríflega fjórir af hverjum tíu Íslendingum vildu leyfa honum að leigja jörðina, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var í lok sama mánaðar. 30,7 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust því mjög eða frekar andvíg.
Ögmundi innanríkisráðherra þóttu þessar ráðagerðir varhugaverðar, og sagði mikilvægt að taka málið til skoðunar. Fór svo, að ákveðið var að skipa hóp ráðherra og starfsmanna ráðuneyta til að fara yfir áformin.
„Ýmis álitamál hafa komið upp við vinnslu þessa máls. Mikilvægt er að skoða hver áhrif þessarar fjárfestingar yrðu til framtíðar, með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins og sveitarfélaganna. Þá er mikilvægt að tryggja að fjárhag umræddra sveitarfélaga verði ekki stefnt í hættu vegna þessa verkefnis t.d. ef ekkert verður úr fyrirhugaðri uppbyggingu,“ sagði í tilkynningu.
Myndskeið mbl.is: Starfshópur fer yfir mál Nubo
Þá skrifaði hópur fólks, þar á meðal Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar, undir áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar um að Grímsstaðir á Fjöllum yrðu þjóðareign. Var auglýsing þess efnis birt í Morgunblaðinu 31. ágúst 2012.
Meðal undirskrifaðra voru þeir Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjórar Morgunblaðsins, Páll Skúlason heitinn, heimspekingur og fyrrverandi háskólarektor, Ómar Ragnarsson fréttamaður, Ólafur Stefánsson handboltamaður, Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður og rithöfundarnir Pétur Gunnarsson og Jón Kalman Stefánsson.
Nubo svaraði gagnrýninni í viðtali í tímaritinu Mannlíf, þar sem hann neitaði meðal annars tengslum við kínverska Kommúnistaflokkinn, en á yngri árum hans starfaði hann fyrir áróðursdeild flokksins.
„Fortíð mín hjá flokknum tengist á engan hátt áhuga mínum á Íslandi, sá áhugi er eingöngu persónulegur,“ sagði hann, spurður út í störf sín í deildinni. Þá ræddi hann um ferðir sínar á heimskautin og hæstu tinda heims, foreldramissi, erfiða æsku og ástina á náttúrunni.
Í samtali við mbl.is 17. október 2012 sagðist hann gera ráð fyrir að skrifað yrði undir leigusamninginn í sama mánuði. Leigan myndi þá kosta sex milljónir bandaríkjadala en kostnaður við uppbygginguna myndi nema um hundrað milljónum dala á næstu fjórum árum.
Skömmu síðar, eða 27. október 2012, sagði Nubo í samtali við þýska dagblaðið Der Spiegel að hann væri ekki lengur fullur eldmóðs þegar kæmi að fjárfestingum á Íslandi.
Ástæðuna sagði hann andstöðu við fjárfestingaáform hans á meðal Íslendinga. Sagðist hann hafa orðið fyrir vonbrigðum með það vantraust sem hann hefði á Íslandi. Þá vildi hann einbeita sér að áhugamáli sínu, að semja ljóð.
Og eflaust hefur það ekki verið af hlýhug í garð Nubo, þegar einhverjir tóku sig til og límdu yfir skilti Vegagerðarinnar við afleggjarann til Grímsstaða í nóvember 2012. Stóð þar ekki lengur Grímsstaðir heldur Nubostaðir.
Frétt mbl.is: Grímsstaðir heita núna Nubostaðir
Ráðherranefnd, sem falið var að fjalla um umsókn Zhongkun Grímstaða, fyrirtækis Huangs Nubo, tilkynnti um svipað leyti að fyrirtækið þyrfti að leggja inn aðra umsókn, vegna fyrirhugaðrar fjárfestingar í uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum.
Nubo sagðist þá í samtali við fréttastofu Bloomberg ekki ætla að gefast upp.
„Ég er mjög reiður og pirraður yfir því hversu slæmt viðskiptaumhverfið er á Íslandi,“ sagði Nubo í símaviðtali við Bloomberg í desemberbyrjun 2012. „Ég mun ekki vera fyrri til og draga umsóknina til baka. Ég vil fremur bíða eftir því að þau segi að þau fagni ekki mínum fjárfestingum.“
Bætti hann heldur í þegar blaðamaður breska blaðsins Financial Times tók hann tali. Sagði hann íslensk yfirvöld mismuna á grundvelli kynþáttar.
„Ég tel þetta vera mismunun á grunvelli kynþáttar þar sem ég er kínverskur,“ var haft eftir Nubo. Bætti hann við að „margir hafa fjárfest á Íslandi í gegnum tíðina, en enginn hefur verið meðhöndlaður eins og ég.“
Í ágúst 2013 kom í ljós að Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, hefði átt fundi með fulltrúum Nubo. Var hún sögð hafa útskýrt fyrir þeim að lög um fjárfestingu erlendra aðila þyrfti að endurskoða í heild sinni.
Skömmu síðar sagði Hanna Birna í samtali við mbl.is að skerpa þyrfti á lögum um eignar- og afnotarétt fasteigna. Á meðan sú endurskoðun færi fram yrðu meiri háttar undanþágur á grundvelli laganna ekki afgreiddar.
„Það þekkja allir til Huang Nubo-málsins og hversu flókið það hefur reynst, en það er ekki síst vegna þess að löggjöfin er óljós og málið allt rekið á grundvelli undanþága. Við teljum ekki tímabært að svara því einstaka máli með öðrum hætti en verið hefur fyrr en við erum búin að fara í þessa endurskoðun.“
Í janúar 2014 lögðu Ögmundur Jónasson og Svandís Svavarsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni yrði falið að leita eftir samningi um kaup á jörðinni, og tryggja þannig að hún yrði þjóðareign.
„Margt mælir með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum. Ríkið á þegar tvær jarðir suður af Grímsstöðum, Víðidal og Möðrudal, og um fjórðung af Grímsstöðum á Fjöllum. Þá skal tekið undir það sem fram kemur í framangreindri áskorun að æskilegt sé að mótuð verði stefna varðandi eignarhald og umráð yfir óbyggðum og þá sérstaklega bújörðum sem teygja sig inn á hálendið,“ sagði í greinargerð með tillögunni.
Fréttir fóru í framhaldinu að berast af fjárfestingum Nubo í Noregi og þar á meðal Svalbarða.
Í júlí 2014 kom út skýrsla sérstaks verkefnahóps um erlenda fjárfestingu hér á landi. Þótti hún loka á möguleika kínverska fjárfestisins til að kaupa jörðina.
Í skýrslunni var lagt til að eign þegna utan EES svæðisins yrði takmörkuð við landakaup utan þéttbýlis við einn hektara, en 5-10 hektara ef um atvinnustarfsemi væri að ræða. Þó var lagt til að hægt yrði að sækja um undanþágu allt að 25 hektara.
Samkvæmt Halldóri Jóhannssyni, talsmanni Nubo, var þetta þó ekki allt of langt frá upphaflegum hugmyndum Nubo um kaup á landi hérlendis. Grímsstaðir á Fjöllum eru í heild 300 ferkílómetrar, eða um 300 þúsund hektarar. Svæðið sem Nubo hafi viljað kaupa voru 20 þúsund hektarar, en þar af hafi aðeins átt að nýta 300 til uppbyggingar á hóteli, bílastæðum, flugvelli, golfsvæði og annarri afþreyingu.
Að lokum fór svo, að stjórn Grímsstaða á Fjöllum ákvað í desember 2014 að slíta viðræðum við Nubo. Var jafnframt fallið frá fyrirhuguðum kaupum félagsins á landinu, en eitt helsta hlutverk þess var að kaupa hluta þess lands sem telst til jarðarinnar, og í framhaldinu framleigja það til Nubo.
Kristján Þór Magnússon, þáverandi sveitarstjóri Norðurþings, gegndi formennsku í félaginu. Sagði hann ástæður þess að ákveðið hafi verið að slíta viðræðum vera meðal annars aðrar áherslur sveitarstjórnarmanna eftir kosningar þess vors, auk þess sem áhugi Nubo á svæðinu hefði farið minnkandi.
„Haft var samband við aðila á hans vegum og þá kemur það í ljós að hann [Huang Nubo] sér þetta ekki sem raunhæfan kost í neinni framtíð,“ sagði Kristján Þór í samtali við mbl.is.
Síðan þá hefur jörðin verið til sölu, og auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Jóhann Friðgeir Valdimarsson, fasteignasali hjá Fasteignasölunni Höfða, sagði í samtali við mbl.is í mars síðastliðnum að „sterkar þreifingar“ ættu sér stað.
„Mér finnst að ríkið ætti að kaupa þetta land og halda landinu í íslenskri eigu áður en það verður um seinan,“ sagði Jóhann Friðgeir.
Svo virðist vera nú, en eins og fram kom hér að ofan hefur breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe keypt meirihlutann í jörðinni.
Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs, segir Ratcliffe ekki hafa nein uppbyggingaráform varðandi jörðina og kaupin feli því ekki í sér neinar breytingar fyrir aðra eigendur.
Jörðin sé þess í stað sögð keypt með það að markmiði að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi.
„Vatnasvið Selár nær yfir í Grímsstaðalandið og árið 2011 var opnaður laxastigi í Selá sem gerir kleift fyrir lax að ganga upp á þessi svæði,“ sagði Gísli í samtali við mbl.is í gærkvöldi.
„Við vitum ekki hve langt fiskurinn hefur gengið enn þá, en þetta er liður í því að byggja upp laxastofna á þessu svæði og að gera svæði sem voru áður óaðgengileg, aðgengileg.“